Skattlagning gæti virkað sem vopn í höndum stjórnvalda í baráttunni við loftlagsbreytingar. Hagfræðideild Landsbankans telur að ríki gætu notað svokallaðan kolefnistoll.
Hann felur í sér að tollur eða gjald, sem fer eftir kolefnisinnihaldi, yrði lagt á vörur sem fluttar eru inn í landið. Gjaldið yrði síðan endurgreitt ef hægt væri að sýna fram á að mótsvarandi skattlagning hafi þegar farið fram í framleiðslulandinu.
Talið er að hvatningin til þess að flytja út vörur með mengunarinnihaldi, sem viðhlítandi gjöld hafa ekki verið greidd af, myndi minnka, þar sem hagstæðara væri að skattleggja vörurnar á heimavelli.
Skattur af þessu tagi gæti þannig breytt ástandinu að einhverju leyti.
Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans. Þar er bent á að í kjölfar loftslagsráðstefnunnar í París munu stjórnvöld einstakra landa þurfa að setja sér mjög ákveðin og mælanleg markmið auk þess að bæta og efla eftirlit með árangri.
Hagsjáin í gær fjallaði einnig um loftlagsbreytingar en þar var bent á að áhrif nýrra markmiða og reglusetningar á þessu sviði muni hafa víðtæk áhrif á atvinnulíf í heiminum á næstu árum og áratugum.
Frétt mbl.is: Löngu tímabært að líta til loftlagsmála
„Ljóst er að þörf er á markvissum aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda. Í því samhengi er samþætting loftlags- og tæknistefnu mikilvæg.“
„Í fyrsta lagi væri hægt að notast við verðlagningu á mengun og útblæstri til að hafa áhrif á kauphegðun neytenda og til þess að framleiðendur taki tillit til neikvæðra ytri áhrifa vegna framleiðslu sinnar,“ segir Landsbankinn.
„Í öðru lagi ættu stjórnvöld að renna stoðum undir þá þætti sem styðja hvað mest við jákvæðar tæknibreytingar.“
Alþjóðaorkumálastofnunin, IEA, hefur t.d. gefið út leiðbeiningar um hvaða stýritæki sé hagkvæmast að nota í hverju tilfelli fyrir sig. Bent er á að stjórnvöld ættu vera meðvituð um í hvaða fasa tækniframfari eru.
M.ö.o., gætu stjórnvöld dregið úr áhættu aðila á allra fyrstu stigum tækniþróunar og smám saman hleypt tækninni í samkeppnisumhverfið.
Stuðningur stjórnvalda ætti þannig að minnka smá saman yfir tíma og ætti að ljúka um það leyti sem tæknin verður samkeppnishæf eða það sé orðið ljóst að tæknin muni ekki uppfylla þær kröfur sem gerðar eru.
Þá hefur Evrópusambandið ýtt undir opnun markaðs fyrir græn skuldabréf, þar sem fjárfestar veita lán til fyrirtækis og fyrirtæki lofar að nota lánið í umhverfisvænum tilgangi.
Mikil aukning hefur verið í útgáfu slíkra skuldabréfa síðustu ár.
Nýjar útgáfur af grænum skuldabréfum t.a.m. þrefölduðust á árinu 2014, þ.e. í 36,65 milljarða Bandaríkjadala. Grænu skuldabréfin samsvara hins vegar ekki nema broti úr prósentu af alþjólegum skuldabréfamarkaði.