Á árinu 2015 styrktist gengi krónunnar um 7,9 prósent, velta á gjaldeyrismarkaði jókst um 85 prósent og var hlutur Seðlabankans í veltunni 55 prósent.
Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 123 milljarða króna og var í árslok 653 milljarðar. Forðinn jókst mest vegna hreinna gjaldeyriskaupa Seðlabankans um sem nemur 272 milljörðum króna á árinu en á móti lækkaði forðinn m.a. vegna uppkaupa ríkissjóðs á eigin bréfum í erlendum gjaldmiðli að andvirði 42 milljarða króna.
Í tilkynningu frá Seðlabankanum segir að á nýliðnu ári fylgdi Seðlabankinn áfram þeirri stefnu sem peningastefnunefnd kynnti í maí 2013 um virkari inngrip bankans á gjaldeyrismarkaði. Öll inngrip Seðlabankans voru á sama veg, þ.e. Seðlabankinn keypti gjaldeyri af viðskiptavökum. Bankinn keypti rúmlega tvöfalt meira á árinu 2015 en 2014.
Alls námu hrein gjaldeyriskaup Seðlabankans á millibankamarkaði 272,4 milljörðum króna á árinu 2015, sem nema um 12,5 prósent af áætlaðri vergri landsframleiðslu ársins og var aukningin um 140 prósent á milli ára.
Til samanburðar námu gjaldeyriskaup á árinu 2014 um 5,6 prósentum af landsframleiðslu þess árs. Heildarvelta á gjaldeyrismarkaðnum jókst um 85 prósent á milli ára og nam 492,7 milljörðum króna árið 2015. Hlutur Seðlabankans í heildarveltu nam um 55 prósent árið 2015 en um 43 prósent árið 2014.
Markmið gjaldeyriskaupa í aðdraganda losunar hafta er annars vegar að stækka gjaldeyrisforða og auka þann hluta hans sem ekki er fjármagnaður með erlendum lánum og hins vegar að draga úr sveiflum í gengi krónunnar.
Lítil verðbólga og gjaldeyrisinnstreymi gerðu svo umfangsmikil kaup möguleg, enda styrktist gengið um 7,9 prósent á árinu þrátt fyrir umfangsmikil kaup. Gjaldeyrisviðskipti bankans drógu úr skammtímasveiflum gengis og komu í veg fyrir meiri styrkingu en þó varð.
Gengi krónu gagnvart evru var skráð í í janúar 154,3 en lægsta gildi hennar var skráð 140,3 í desember. Mismunur á hæsta og lægsta gildi krónu gagnvart evru var um 9,9 prósent en til samanburðar var munurinn 4,9 prósemt árið 2014.
Daglegt flökt gengis krónu gagnvart evru var 3,1 prósent á ársgrunni.
Auk inngripa á gjaldeyrismarkaðnum héldu reglubundin gjaldeyriskaup Seðlabankans áfram í óbreyttri mynd frá fyrra ári. Kaupin námu 6 milljónum evra í viku hverri og áttu sér stað á fyrirfram tilkynntum tíma. Samtals námu reglubundin kaup um 46,2 ma.kr. árið 2015 sem er um 17% af heildarkaupum ársins.
Gjaldeyrisforði Seðlabankans jókst um 123 milljarða króna á árinu 2015 og var í árslok 653 milljarðar króna. Gjaldeyrisforði Seðlabankans mældist í lok árs 33 prósent af vergri landsframleiðslu, 35 prósent af peningamagni og spariféog dugði fyrir innflutningi á vörum og þjónustu í 9 mánuði.