Íslenska skordýrasnakkið frá Crowbar hafði einungis verið í sölu í örfáa daga þegar því var kippt aftur úr hillum. Ástæðan er evrópsk reglugerð um nýfæði sem tók nýlega gildi á Íslandi.
Reglugerðin var innleidd hinn 28. október sl. en samkvæmt henni er markaðssetning á nýfæði háð leyfi frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Ný matvæli þurfa að standast áhættumat sem miðar fyrst og fremst að því að finna út hvort neysla matvælanna sé örugg neytandanum.
Íslenska fyrirtækið Crowbar, sem framleiðir Jungle Bar, var ekki látið vita af innleiðingunni og vissu eigendur þess ekki af hertum reglum.
Jungle Bar fór í sölu föstudaginn 10. janúar en um er að ræða orkustöng þar sem eitt hráefnanna er krybbuhveiti, eða sérræktaðar krybbur sem muldar eru í duft.
Stefán Atli Thoroddsen, einn eigenda Crowbar, segir söluna hafa farið ágætlega af stað. Á mánudeginum barst þeim hins vegar símtal frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Matvælastofnun. Þeir voru beðnir um að skila aukaskjölum og taka vörurnar úr hillum á meðan unnið yrði úr málinu.
Þeir búast við svörum í þessari viku og Stefán segist nokkuð bjartsýnn miðað við vinnubrögð Matvælastofnunar. „Þeir hafa verið að spyrja um ýmis atriði sem hefði kannski ekki verið gert ef málið hefði bara verið slegið alveg út af borðinu.“
Krybburnar í Jungle bar eru ræktaðar af krybbubónda í Kanada sem hefur leyfi frá ríkinu til skordýraframleiðslu til manneldis. Meðal gagna sem fyrirtækið þurfti að skila inn voru upplýsingar um framleiðsluferlið, uppruna skordýranna og gæðaeftirlit við framleiðsluna. „Við erum núna búnir að útvega gögnin og bíðum bara svara,“ segir Stefán.
„Það er ekki skemmtilegt að setja vöru á markað og setja hana strax aftur á pásu en við eigum von á svari sem fyrst og líkur eru á að hún fari aftur í sölu í næstu viku.“
Hann segir fyrirtækið þó ekki hafa orðið fyrir neinu tjóni vegna málsins þar sem magnið var ekki mikið, eða um þrjú þúsund stykki. „Við erum að einblína á aðra markaði en við erum stoltir af því sem við erum að gera og langaði að fagna með því að bjóða Íslendingum upp á þessa vöru.“
Hægt er að kaupa orkustöngina á heimasíðu Jungle Bar auk þess sem fyrirtækið á í viðræðum við nokkra aðila í Bandaríkjunum og Evrópu. Stefán segir reglurnar mismunandi milli Evrópulanda og nefnir að Holland sé t.d. alfarið búið að leyfa skordýr í matvælum. Sérstök áhersla er því lögð á Holland.
Stefán segir þá eiga í viðræðum við minni verslunarkeðjur í Bandaríkjunum og er ætlunin að byrja smátt en auka framleiðsluna rólega.