Þolum ekki sömu mistökin aftur

Samsett mynd/Eggert

Versta mögulega niðurstaðan við sölu ríkisins á hlut sínum í bönkunum væri eitthvað í átt við síðustu einkavæðingu. Draumastaðan væri einn banki í ríkiseigu, annar í eigu erlendra fjárfesta og sá þriðji í dreifðu eignarhaldi lífeyrissjóða og fjárfesta.

Þetta sagði Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands og fyrrum efnahags- og viðskiptaráðherra, á hádegisfundi Félags viðskipta- og hagfræðinga í dag. Fundurinn bar yfirskriftina „Einkavæðing bankanna - taka tvö“.

Gylfi sagði mikilvægt að fara ekki of hratt í söluna en hins vegar ætti ríkið ekki að bíða of lengi og eiga fleiri en einn banka til lengdar.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, tók undir þetta að hluta og sagði að gera þyrfti ráð fyrir að salan myndi taka sinn tíma. „En það liggur á að marka stefnu um söluna. Það liggur á að ríkið taki ákvörðun,“ sagði Páll. 

Hins vegar sagðist hann vera ósammála framtíðarsýn Gylfa og bætti við að það yrði skelfilegt slys ef ríkið færi að halda einum ríkisbanka. 

„Þetta er ekki stefna sem nokkurt annað ríki í álfunni er að taka. Nokkur þeirra hafa fengið baka í fangið og þau öll eiga það sameiginlegt að ætla að losa sig við þá smám saman,“ sagði Páll og bætti við að það væri einungis hlutverk ríkisins að tryggja grunnumgjörðina. 

Fennir yfir reynsluna

„Ríkið er hérna í tvennu hlutverki,“ sagði Gylfi. „Annars vegar sem eigandi og seljandi banka og hins vegar sem mótandi regluverksins og eftirlitsaðili.“

„Regluverkið er þegar á heildina er litið töluvert betra en fyrir hrun, þótt sagan kenni okkur að þegar fennir yfir reynsluna af því sem fór úrskeiðis, verði undið ofan af breytingunum aftur,“ sagði Gylfi. 

Gylfi sagði brýnt að fá svör við nokkrum spurningum áður en salan fer fram; Í fyrsta lagi hvaða krafa verði gerð um eigið fé, í öðru lagi hvort krafa verði gerð um dreift eignarhald og í þriðja og síðasta lagi hvort bönkunum verði skipt upp í fjárfestinga- og viðskiptabanka. 

Eiginfjárhlutfall bankanna er í dag mun betra en það var fyrir hrun, eða í kringum tuttugu prósent. Gylfi sagði eðlilegt að tryggja slíkar kröfur til frambúðar og þá ef til vill að leyfa bönkunum að greiða út arð ef hlutfallið fer yfir 25 prósent.“

Gylfi sagðist ekki hlynntur hugmyndum um að greiða út verulegan hluta eiginfjár bankanna fyrir sölu. „Það væru veruleg mistök í átt að því að stilla upp bankakerfi sem býr við sömu veikleika og það kerfi sem hrundi. Það væri mjög erfitt að krefja bankana um eigið fé síðar.“

Takmarka eignarhaldið

Hvað kröfur um dreift eignarhald varðar vísaði Gylfi til umræðunnar fyrir síðustu einkavæðingu. „Í aðdraganda einkavæðingar Landsbanka og Búnaðarbanka á sínum tíma var nokkur umræða um það hvort setja ætti hámark á eignarhlut einstakra eiganda bankanna.“

Það var ekki gert en fallist var á það að Fjármálaeftirlitið þyrfti að veita heimild fyrir því að tiltekinn fjárfestir fengi að fara með ráðandi hlut.

„Það fór eins og það fór. Ráðandi hlutir í bönkunum voru notaðir til þess að láta bankana veita gríðarlegum upphæðum í uppbyggingu viðskiptavelda eigendanna. Fé sem tapaðist af verulegu leyti þegar spilaborgirnar hrundu.“

Gylfi sagði að í ljósi reynslunnar hlyti að koma til greina að takmarka eignarhaldið með einhverjum hætti og þá t.d. að tengdir aðilar, aðrir en ríkið, megi ekki eiga meira en 5 til 10 prósent hver. Það ætti þó ekki við ef íslenskur banki yrði seldur erlendum banka í einu lagi.

Of stór biti

Ástæðan fyrir því að erlent eignarhald á einhverjum banka er talið nauðsynlegt er einfaldlega sú að íslenski markaðurinn ræður ekki væri stærri bita. Þetta var meðal annars staðfest í nýlegri skýrslu Banka­sýslu rík­is­ins. Ljóst er að lífeyrissjóðirnir koma helst til greina sem kaupendur, enda stærstu leikendur á markaðnum.

Þrátt fyrir það yrði of stór hluti af eignum þeirra bundinn í bönkunum. Ef lífeyrissjóðirnir myndu kaupa bæði Íslandsbanka og Landsbankann væri um 14% hlutur bundinn í þeim og ef þeir myndu kaupa alla viðskiptabankana þrjá væri hlutfallið um 19%. 

Ef þeir myndu hins vegar bara kaupa Landsbankann væri hlutfallið um 8% og með Íslandsbanka væri hlutfallið um 6%.

Enginn afsláttur gefinn

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands, sagði ljóst að tryggja þurfi gagnsæi í ferlinu og passa vel að settum reglum og viðmiðum verði fylgt. „Íslenskt samfélag þolir ekki aðra misheppnaða einkavæðingu. Íslenskt viðskiptalíf og samfélag getur ekki farið í gegnum annað eins,“ sagði hún.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, benti að bankasýslunni bæri lögum samkvæmt að haga söluferlinu í samræmi við góða viðskipta- og stjórnsýsluhætti og sagði ljóst að enginn afsláttur yrði gefinn af því.

Gylfi Magnússon
Gylfi Magnússon Eggert/Eggert
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar.
Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK