Hagnaður WhiteRock ehf., sem heldur utan um eignarhlut Þorsteins Baldurs Friðrikssonar, stofnanda Plain Vanilla, í Plain Vanilla Corp, sem er móðurfélag PV hugbúnaðar hf, dróst stórlega saman milli ára.
Á árinu 2014 nam hagnaðurinn 33 milljónum króna samanborið við 580 milljónir á árinu 2013. Gríðarhár hagnaður á árinu 2013 stafar af fjárfestingu félaganna Tencent Holdings og Sequoia Capital í Plain Vanilla í lok árs 2013. Þá lögðu þau 22 milljónir dollara í reksturinn og fékk Þorsteinn tæpar 583 milljónir króna í sinn hlut.
Eigið fé félagsins var jákvætt um 584 milljónir króna í árslok 2014 og námu eignir þess rúmum 611 milljónum króna. Skuldirnar námu aftur á móti tæpum 29 milljónum króna.
Á árinu 2014 greiddi Þorsteinn sér 30 milljóna króna arð.
Hagnaður PV hugbúnaðar ehf., sem heldur utan um rekstur Plain Vanilla, jókst milli ára og nam 12,5 milljónum króna samanborið við tæplega sex milljóna króna tap árið 2013.
Rekstrartekjur félagsins rúmlega þrefölduðust milli ára og námu 873 milljónum króna samanborið við 244 milljónir árið áður.
Í ársreikningnum kemur fram að launakostnaður hafi aukist gífurlega milli ára, eða úr tæpum 140 milljónum króna í tæpar 624 milljónir króna en fyrirtækið stækkaði einnig mikið milli ára.
Eigið fé félagsins var jákvætt um 1,1 milljarð króna samanborið við 273 milljónir árið áður. Handbært fé í lok ársins var þá 89 milljónir króna.
Líkt og mbl greindi frá í gær hyggst tölvuleikjaframleiðandinn Glu Mobile Inc fjárfesta í Plain Vanilla fyrir allt að 7,5 milljónir bandaríkjadala sem samsvarar um 970 milljónum króna.