Í nóvember 2011 þegar Íslandsbanki yfirtók allar eignir og skuldir Byr hf. greiddi bankinn 6,6 milljarða fyrir sparisjóðinn með útgáfu skuldabréfs. Á þeim tíma átti Byr eignir í ýmsum hlutdeildarfélögum, dótturfélögum og öðrum fastafjármunum. Voru þessar eignir metnar á 6 milljarða. Meðal annars fylgdi með 22% hlutur í félaginu Borgun.
Virði hlutanna í hlutdeildarfélögum var metinn á 1,1 milljarð í ársreikningi Íslandsbanka árið 2011, eins og fram hefur komið fram í umfjöllun Viðskiptablaðsins. Hluturinn í Borgun var meðal flokkaður þar á meðal, en virði hans hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum.
Landsbankinn seldi meðal annars 31,2% hlut sinn í Borgun á 2,2 milljarða í árslok 2014. Miðað við þá sölu var 22% hluturinn metinn á um 1,6 milljarð og því verðmætari en allt safn hlutdeildarfélaganna í mati Íslandsbanka árið 2011. Til viðbótar fékk Íslandsbanki 176 milljónir í arð frá Borgun vegna 22% hlutarins eftir árið 2014.
Eins og Morgunblaðið greindi frá í vikunni er gert ráð fyrir að yfirtaka Visa International á Visa Europe muni skila íslensku greiðslukortafyrirtækjunum Visa Ísland og Borgun milljörðum á komandi misserum. Ljóst er því að 22% hluturinn sem Íslandsbanki fékk með yfirtöku Byrs er talsvert verðmætari en bankinn hafði áætlað í mati sínu á sparisjóðnum.