Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms sem viðurkenndi tveggja milljarða kröfu Williams Grand Prix Engineering sem almenna kröfu við slit Glitnis. Krafan byggir á ábyrgðaryfirlýsingu sem Jón Ásgeir Jóhannesson, Sport Investments og Baugur Group gekkst undir árið 2008.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur lá fyrir 13. nóvember 2015, en dómur Hæstaréttar féll í gær.
Þann 26. ágúst 2008 gerði Glitnir samning við Sport Investment (SI), Baug Group og Jón Ásgeir um að Glitnir myndi veita ábyrgð annars vegar í tengslum við samning um kaup SI á 10 % hlutafjár í Williams Grand Prix Engineering, sem rekur kappaksturslið í tengslum við kappaksturskeppnina Formúlu 1, og hins vegar vegna styrktarsamnings milli Williams og SI og Jóns Ásgeirs. Samdægurs gaf Glitnir út yfirlýsingu um umrædda ábyrgð til Williams.
Tekið er fram að um tvo aðskilda löggerninga er að ræða.
Sports Investments ehf. var stofnað í október 2007. Það áttu félögin Baugur hf., Baugur Group og Jón Ásgeir, sem var forstjóri Baugs og stjórnarformaður FL Group, sem var stærsti hluthafans í Glitni banka.
Hæstiréttur segir að þótt yfirlýsing um ábyrgðina hafi verið gefin á grundvelli samningsins hafi engin slík tengsl staðið milli þeirra sem gæti valdið því að annmarkar á samningnum, ógilding hans eða riftun hefðu sjálfkrafa áhrif á gildi yfirlýsingarinnar.
Þá hafi verið talið að riftun á grundvelli laga um gjaldþrotaskipti gæti með engu móti snúið að ábyrgðaryfirlýsingu Glitnis til Williams.
Enn fremur hafi ekki verið talið að það breytti rétti Williams til að krefjast greiðslu á grundvelli ábyrgðar Glitnis að Williams hafi ekki reynt á ábyrgð Jóns Ásgeirs né lýst kröfu vegna skuldar við skipti á þrotabúi SI.
Loks var talið að Glitnir gæti ekki borið fyrir sig 36. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga til að losna undan skuldbindingu við Williams á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingarinnar.
Þá skal Glitnir greiða Williams eina milljón kr. í kærumálskostnað.