Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, telur skynsamlegt að auka þátttöku einkaaðila í rekstri fríhafnarverslana en telur jafnframt mjög mikilvægt að í þeim efnum verði vandlega gætt að því að raska ekki samkeppnisstöðu gagnvart aðilum sem stunda rekstur utan flugvallarsvæðisins. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Vilhjálms Árnasonar, flokksbróður ráðherrans, um eignarhald á Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fríhafnarverslun.
Að sögn Bjarna rekur ríkissjóður sem slíkur ekki fríhafnarverslun í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. „Opinbera hlutafélagið Isavia á og rekur hins vegar félagið Fríhöfn ehf., sem er sérstakt einkahlutafélag sem hefur þann afmarkaða tilgang að reka umræddar fríhafnarverslanir. Í núverandi lagaumhverfi er sérstaklega mælt fyrir um skyldu Isavia til hafa með höndum rekstur fríhafnarverslana.
Á þessu stigi hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir í þá veru að breyta þessu fyrirkomulagi. Í ljósi hinnar gríðarmiklu uppbyggingar sem fyrirhuguð er á flugvellinum og þeirra breytinga sem óhjákvæmilega munu verða á öllu rekstrarumhverfi hans á næstu árum er ekki ólíklegt að þessi þáttur rekstrar Isavia muni sæta frekari skoðun í nánustu framtíð,“ segir í svari Bjarna.
Jafnfram kemur fram í svari ráðherra að hann hafi fullan hug á því að gefa einkaaðilum tækifæri til þess að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu á flugvallarsvæðinu þegar skilyrði til þess eru ákjósanleg.