Nærri þrefalt fleiri bókuðu gistingu hér á landi í gegnum Airbnb í fyrra en árið á undan og allur þessi fjöldi lætur oftar en ekki vel af móttökunum. Þetta kemur fram á vef Túrista.
Þar kemur fram að nú megi finna hátt í 4 þúsund íslensk gistirými á vef Airbnb og fjölgaði gestum fyrirtækisins hér á landi um 156 prósent milli ára. Þeir sem bóka gistingu hjá Airbnb gefst kostur á að gefa leigusölunum einkunn í lok dvalar og þeir íslensku fá almennt góða umsögn samkvæmt upplýsingum frá Airbnb. Og reyndar svo góða að á síðasta ári voru það aðeins gestgjafar í fimm öðrum löndum sem fengu hærri meðaleinkunn en þeir íslensku eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.
Athygli vekur að Norðurlöndin fimm komast öll á topp tíu yfir þau lönd þar sem heimamenn fá bestu meðmælin.
„Miðað við hina frægu höfðatölu þá er útbreiðsla Airbnb miklu meiri hér á landi en hjá frændþjóðunum. Hutfallslega eru nefnilega um sjöfalt fleiri íslensk gistirými en norsk í boði hjá Airbnb og fjöldinn hér er þrefaldur á við framboðið í Danmörku. Umsvif Airbnb á Íslandi eru orðin það mikil að fyrirtækið hefur á sínum snærum umtalsvert fleiri herbergie n þrjár stærstu hótelkeðjur landsins samanlagt,“ segir á vef Túrista. Er því bætti við að ekki séu það aðeins erlendir ferðamenn hér á landi sem nýta sér þjónustu Airbnb því í fyrra tvöfaldaðist nærri því sá fjöldi íslenskra túrista sem bókaði gistingu hjá Airbnb í útlöndum samkvæmt svari fyrirtækisins við fyrirspurn Túrista.
Þau lönd þar sem gestgjafar fá bestu meðmælin á Airbnb:
1. Nýja Sjáland
2. Serbía
3. Noregur
4. Svíþjóð
5. Bandaríkin
6. Ísland
7. Írland
8. Kanada
9. Finnland
10. Danmörk