Mikil verðlækkun á olíu virðist ekki hafa ratað að fullu yfir í verð á flugmiðum. Á milli tímabila lækkar flugverð að meðaltali um 1,7%, þ.e. munurinn á því að kaupa flug núna miðað við að kaupa flug fyrir mánuði er einungis um þúsund krónur. Flugverð helst því afar stöðugt um þessar mundir, segir í verðkönnun Dohop fyrir febrúar.
Flug til Stokkhólms og Kaupmannahafnar lækkar þó áberandi í verði milli mánaða en í báðum tilvikum er um 10% lækkun á flugverði nú í byrjun árs.
Greinilegri breyting á milli ára
Þegar lengra er litið má aftur á móti sjá að nú er um 9% ódýrara að kaupa flug en á sama tíma í fyrra. Þar munar mestu á flugi til Boston eða New York, en tæpum 25.000 krónum munar á flugi til Boston miðað við sama tíma í fyrra og 15.000 krónum til New York. Sé verð á flugi til þessara borga tekið út, er eftir rúmlega 4% verðlækkun.
Verð á flugi til Manchester og Amsterdam lækkar einnig mikið eða um 18% í báðum tilvikum.
Verð á flugi til Boston og New York helst stöðugt milli tímabila en vart er mælanleg breyting á verði á flugi til Boston. Meðalverða á flugmiða til New York hækkar um tæp 5% miðað við verðið í lok árs 2015, segir í tilkynningu frá Dohop.
Dohop beitir sambærilegri aðferð og Hagstofa Íslands við samantekt gagna á fargjöldum. Þrjár dagsetningar eru skoðaðar hverju sinni: sú fyrsta er eftir tvær vikur, önnur eftir fjórar vikur og þriðja eftir átta vikur. Í hverri viku eru allir 7 dagar skoðaðir með vikudvöl í huga og meðaltal hverrar viku er endanlegt verð fyrir það tímabil. Við gerð verðkönnunarinnar er gert ráð fyrir einum farþega sem flýgur báðar leiðir með eina ferðatösku og handfarangur sem er minna en 5 kíló að þyngd.