Hagar ætla að skila 245 milljónum króna til viðskiptavina í gegnum lægra vöruverð. Útfærslan verður kynnt síðar.
Hinn 21. janúar síðastliðinn var kveðinn upp dómur í Hæstarétti í máli Haga gegn íslenska ríkinu. Högum voru dæmdar 245 milljónir auk vaxta vegna ólögmætrar gjaldtöku ríkissjóðs af innfluttum landbúnaðarvörum.
Á heimsíðu Haga kemur fram að greiðsla vegna dómsins hafi enn ekki borist Högum.
„Afstaða Haga til þess hvernig þessum fjármunum verður ráðstafað hefur ávallt legið fyrir. Þeim fjármunum verður skilað til viðskiptavina félagsins í gegnum lægra vöruverð,“ segja Hagar.
Þá segir að félagið þurfi að fara yfir álitamál um framkvæmdina, meðal annars með tilliti til samkeppnislaga.
Félagið mun kynna sérstaklega með hvaða hætti vöruverð verður lækkað til viðskiptavina Bónus og Hagkaups.
Málið varðaði innheimtu svokallaðs útboðsgjalds, sem er lagt á landbúnaðarvörur. Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að álagning gjaldsins væri ólögmæt og stangaðist á við stjórnarskrá.
Héraðsdómur féllst hins vegar ekki endurgreiðslukröfu vegna gjaldsins þar sem gögn lágu ekki fyrir um hvort gjaldið hefði skilað sér til baka til greiðanda í gegnum verðlagningu vörunnar.
Hæstiréttur komst að annarri niðurstöðu og féllst á endurgreiðslukröfuna. Í dóminum kom fram að fyrirtækin höfðu orðið fyrir tjóni vegna ólögmætrar skattheimtu. Yrði eðli málsins samkvæmt að miða við að álagning gjaldsins hefði haft áhrif á rekstur fyrirtækjanna og að sönnunarbyrði um annað hvíldi á ríkinu.