Samkeppnin heldur öllum á tánum

Aur, Kass og Pyngjan eru íslensk greiðsluöpp.
Aur, Kass og Pyngjan eru íslensk greiðsluöpp. Samsett mynd

Á stuttum tíma hafa nokkur greiðsluöpp skotið upp kollinum. Pyngjan, Aur og Kass á Íslandi en Apple Pay og aðrar þjónustur erlendis. Þróunin er ör og miklar breytingar gætu verið framundan á bankamarkaði.

Pyngjan er elst íslensku appanna og kom út sumarið 2014. Aur kom á markað síðasta haust og Kass bættist við fyrir stuttu síðan.

Pyngjan er þó ólík þeim tveimur síðarnefndu að því leyti að hægt er að greiða fyrir vörur og þjónustu með appinu. Aur og Kass eru til þess að millifæra, skipta greiðslum ásamt því að rukka vini og vandamenn. Öppin geta t.d. nýst þeim sem eru að kaupa gjöf í sameiningu eða að fara út að borða þegar einn úr hópnum tekur reikninginn.

Það kostar hvorki að nota debetkort hjá Aur né Kass en gjald er hins vegar tekið fyrir notkun kreditkorta enda fylgir því meiri kostnaður. 

Stundum eftir á 

„Við smíðuðum þetta app til þess að einfalda fólki lífið,“ segir Helgi Pjetur Jóhannsson, sem er einn af eigendum Stokks sem hannaði og forritaði Aur appið og á það með Nova. „Við vildum gera fólki auðvelt að flytja peninga á milli án þess að þurfa að veita bankaupplýsingar,“ segir hann.

Helgi segir Stokk hafa verið að fylgja þróuninni erlendis. „Við erum stundum svolítið eftir á hérna á Íslandi en núna erum við komin nær því að vera með bankaþjónustu í síma,“ segir hann. 

 Í stöðugri þróun

Líkt og áður segir hafa tvö svipuð greiðsluöpp ratað á markaðinn á stuttum tíma. Aðspurður um samkeppnina segist Helgi vera ánægður með hana. „Hún heldur manni á tánum og er til góðs fyrir notendur. Ég get ekki annað en fagnað samkeppni á íslenskum mörkuðum og við vissum svo sem alltaf að einhver myndi koma með svipaða lausn,“ segir hann.

Spurður um hugmyndir að frekari þróun appsins, og þá mögulega í átt að Pyngjunni, sem hægt er að nota í verslunum, segir hann ótrúlega margt á teikniborðinu. „Maður verður bara að forgangsraða. En við verðum með þetta í stöðugri þróun. Það er alveg ljóst,“ segir hann. 

Þá segist hann ekki útiloka erlenda markaðssókn. „Það er aldrei að vita en það eru ýmis atriði sem þurfa að liggja vel fyrir. Góðir möguleikar eru þó til staðar til þess að stíga það skref. En eins og staðan er í dag erum við bara að einbeita okkur að íslenska markaðnum,“ segir hann.

Ýmsir tekjumöguleikar

Notendur eru í dag rúmlega tuttugu þúsund og Helgi segir langflesta nota debetkort. Líkt og áður segir er það ókeyps og spurður um tekjumódelið segir Helgi að ýmsar hugmyndir um nýjar lausnir séu á borðinu. „Við getum ekki alveg farið út í smáatriði þar sem samkeppnin er mikil en við erum með alls konar hugmyndir um frekari tekjumöguleika. Þessi lausn sem er úti núna verður hins vegar alltaf ókeypis fyrir notendur,“ segir hann.

Helgi segir viðtökurnar hafa verið mjög góðar og bætir við að notendur séu á öllum aldri. „Unga fólkið býr til þennan snjóbolta en nær því eldra síðan með sér,“ segir hann. „Við höfum líka séð að foreldrar eru að nota þetta með börnum og þá til dæmis þegar krakkar eru að skreppa út í búð. Þá er hægt að nota appið í stað þess að vera alltaf með peninga í lausu.“

Rafrænir „rebel“ bankar

Spurður um framtíðarsýnina segist Helgi vera viss um að bankaþjónusta eigi eftir að færast ennþá meira á netið. „Ég gæti alveg trúað því að á næstu árum fari einhverjar minni týpur af bönkum að spretta upp,“ segir hann.

„Ekki þessir hefðbundnu með útibú hér og þar. Það hefur verið þróunin í Þýskalandi og í öðrum Evrópulöndum þar sem hálfgerðir „rebel“ rafrænir bankar eru að spretta upp,“ segir hann en bendir síðan á að markaðurinn sé miklu minni á Íslandi og að þróunin gæti því orðið önnur. „En vonandi munum við sjá nútímalegra bankaumhverfi og það erum við aðeins farin að gera með þessum öppum,“ segir Helgi.

Helgi Pjetur Jóhannsson.
Helgi Pjetur Jóhannsson.
Helgi sér fyrir sér rafræna framtíð í bankaheiminum.
Helgi sér fyrir sér rafræna framtíð í bankaheiminum. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK