Gjaldþrotaskiptum á þrotabúi gamla Ormsson er lokið og fengust ellefu milljónir króna greiddar upp í rúmlega 453 milljóna króna kröfur. Það jafngildir um 2,54 prósent endurheimtum.
Félagið Rekstur 90 ehf., hélt utan um reksturinn, en það var úrskurðað gjaldþrota hinn 18. september 2012. Skiptum var lokið hinn 29. janúar sl.
Eigendur félagsins voru Bergsala Íslands, sem áður hét áður R2D2 ehf., og Ormsson ehf., en þau voru að hluta til í eigu þeirra Andrésar B. Sigurðssonar, núverandi markaðsstjóra Bræðranna Ormsson, og Einars Þórs Magnússonar, núverandi framkvæmdastjóra verslunarinnar.
Andrés var hins vegar framkvæmdastjóri Ormsson þegar Rekstur 90 ehf. átti verslunina og Einar Þór var fjármálastjóri.
Félagið Ormsson ehf., heldur utan um rekstur verslunarinnar í dag.
Ormsson ehf. er í eigu Hljómtækni ehf., sem er í eigu Andrésar, Einars Þórs og Elínar Haraldsdóttur, eignkonu Einars.
Ormsson ehf. skilaði síðast ársreikningi árið 2014 en þá nam hagnaður fyrirtækisins 33,7 milljónum króna samanborið við 1,8 milljónir króna árið 2013. Eignir félagsins voru metnar á 1,2 milljarða króna og félagið skuldaði tæplega 1,1 milljarð króna.