Dómarafélag Íslands hefur ákveðið að leggja fram kvörtun til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands og Fjölmiðlanefndar vegna meints óvandaðs fréttaflutnings Fréttablaðsins.
Í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag segir Skúli Magnússon, formaður félagsins, að Fréttablaðið hafi á síðustu vikum fjallað um launahækkanir dómara á misvísandi hátt.
„Dómarar eiga af ýmsum ástæðum erfitt með að svara fyrir sig í opinberri umræðu og eru berskjaldaðir fyrir ómálefnalegri umfjöllun fjölmiðla. Það veldur því einnig vonbrigðum þegar einn stærsti fjölmiðill landsins fjallar ítrekað um kjör dómara án þess að nokkurn tímann sé leitað eftir skýringum eða viðbrögðum úr andstæðri átt,“ skrifar Skúli.
„Hver og einn verður auðvitað að meta það fyrir sig hvort það sé beinlínis markmið Fréttablaðsins að skapa neikvæða mynd af dómurum og rýra traust almennings á störfum þeirra.“
Í greininni bendir Skúli á að Fréttablaðið hafi fjallað um launahækkanirnar undir þeim formerkjum að dómarar hafi fengið hækkanir sem nemi tugum prósenta.
„Þótt þessi fréttaflutningur hafi fengist leiðréttur í stuttu viðtali við undirritaðan sem birtist í blaðinu 7. janúar var blaðið enn við sama heygarðshornið í frétt sl. föstudag þar sem sagði orðrétt að laun dómara hefðu hækkað um 38% í fyrra,“ skrifar Skúli. „Ritstjórn Fréttablaðsins viðurkenndi samdægurs við undirritaðan að umrædd fyrirsögn hefði falið í sér mistök og var því lofað að birt yrði leiðrétting í blaðinu næsta dag.“
Hann segir að við það hafi ekki verið staðið.
„Hins vegar birtist sl. mánudag „árétting“ Fréttablaðsins á þá leið að umrædd prósentutala hefði vísað til grunnlauna dómara, en fréttin hafði að meginstefnu beinst að hækkun lífeyris fyrrverandi dómara eða maka þeirra sem taka laun skv. svonefndri eftirmannsreglu LSR og munu vera um 29 talsins,“ skrifar Skúli.
„Ólíklegt er að margir hafi séð „áréttinguna“ á síðum blaðsins eða áttað sig á því hvað þarna var um að ræða. Hins vegar varð ritstjórn blaðsins ekki við því að birta á síðum blaðsins stutta grein af visi.is þar sem málið var skýrt og gerð athugasemd við fréttaflutning blaðsins.“
Þá vísar hann til úrskurðar kjararáðs frá 17. desember sl. sem fól í sér heildarendurskoðun á launakjörum dómara.
Að sögn Skúla voru með úrskurðinum ýmsar greiðslur sem ákveðnar höfðu verið frá ári til árs færðar inn í grunnlaun dómara, m.a. í samræmi við alþjóðleg viðmið um kjör dómara og sjálfstæði þeirra í starfi. Þegar allt kom til alls fól úrskurðurinn, sem kom til viðbótar 9,3 prósent almennri hækkun kjararáðs í nóvember, í sér um 8 prósent hækkun heildarlauna.
„Auðvitað má deila um hvað þetta fólk eigi að hafa í laun og það er ekki nema eðlilegt að fjölmiðlar fjalli um laun dómara eins og önnur mál, jafnvel með gagnrýnum hætti,“ skrifar Skúli.
„Þá lágmarkskröfu verður hins vegar að gera til fjölmiðla að rétt sé með farið, einkum eftir að ítrekað hefur verið leitast við að leiðrétta missagnir fyrir ritstjórn og blaðamönnum. Þessari kröfu hefur ekki verið fullnægt í umfjöllun Fréttablaðsins.“