Stórfyrirtækið Rio Tinto Alcan tapaði 866 milljónum Bandaríkjadala, um 110 milljörðum íslenskra króna, í fyrra en árið á undan var fyrirtækið rekið með hagnaði. Undirliggjandi hagnaður fyrirtækisins dróst saman um rúm 50% milli ára. Fyrirtækið á og rekur álverið í Straumsvík.
Á vef fyrirtækisins kemur fram að undirliggjandi hagnaður fyrirtækisins, sem er annað stærsta námafyrirtæki heims, hafi verið 4,54 milljarðar Bandaríkjadalir sem er 51% minna en árið 2014 er hann var 9,31 milljarður dala.
Í tilkynningu kemur fram að Rio Tinto starfi við mjög krefjandi aðstæður og vísað til samdráttar í Kína og verðlækkana á hrávörumarkaði.