Milljarða bónusgreiðslurnar sem núverandi og fyrrverandi starfsmenn íslenska eignaumsýslufélagsins ALMC, sem áður var Straumur-Burðaráss, fengu í lok síðasta árs eru í takti við þróunina erlendis. Þetta segir fyrrum forstjóri bankans.
DV greindi frá bónusgreiðslunum í morgun en samkvæmt heimildum blaðsins fengu um 20 til 30 starfsmenn greiddar um 23 milljónir evra, eða sem jafngildir um 3,3 milljörðum íslenskra króna, í desmber sl.
Í samtali við mbl staðfestir Jakob Ásmundsson, fyrrverandi forstjóri Straums, að bónusgreiðslurnar hafi átt sér stað. Hann getur ekki staðfest fjárhæð þeirra en samkvæmt heimildum mbl er það sem fram kemur í DV mjög nærri lagi.
Jakob er einn þeirra sem fær hæstu bónusgreiðsluna en hann var fjármálastjóri ALMC til ársins 2013. Þá tók hann við starfi forstjóra og gegndi því þar til síðasta sumar þegar hann hætti í kjölfar sameiningar Straums og MP banka.
Jakob segir á að greiðslurnar séu í takti við bónusgreiðslukerfið sem var sett á fót á sínum tíma, þ.e. kaupaukakerfi sem var samþykkt á aðalfundi ALMC árið 2011. Þá bendir hann á að starfsmennirnir séu búnir að starfa lengi hjá félaginu
Straumur-Burðaráss var tekinn yfir af Fármálaeftirlitinu í mars 2009 og í kjölfar samþykktar nauðasamninga í júlí 2010 varð eignaumsýslufélagið ALMC til. Eftir samþykktina fengu kröfuhafar yfirráð í nýja félaginu en eigendurnir eru að stærstum hluta erlendir bankar og fjárfestingarsjóðir.
Í frétt DV er fullyrt að þetta sé langsamlega hæsta bónusgreiðsla hjá íslensku félagi frá hruni. Jakob bendir á að fjölmörg íslensk félög séu komin með mikla starfsemi erlendis og segir að það myndi ekki koma sér á óvart ef önnur félög hafi greitt álíka bónusa. „Síðan veit maður ekki hversu mikið af þessu er innleyst og svona hlutir eru ekki alltaf í sviðsljósinu,“ segir hann.
Bónusgreiðslur hjá Straumi komust í umræðuna árið 2009 þegar hugmyndir um háar árangursríkar greiðslur rötuðu í fjölmiðla. Hugmyndin um greiðslurnar var þó slegin af borðinu eftir hörð viðbrögð almennings. Óttar Pálsson, þáverandi forstjóri fyrirtækisins, skrifaði í kjölfarið bréf í Morgunblaðið og baðst afsökunar fyrir hönd Straums. Hann sagði að einblínt hefði verið um of á erlendar aðstæður og að fyrirætlanirnar hefðu ekki verið í nægilegum tengslum við veruleikann sem við Íslendingar bjuggu við.
Frétt mbl.is: Biðst afsökunar fyrir hönd Straums
Óttar er einn þeirra sem fékk bónusgreiðsluna í desember sl. en þegar mbl hafði samband við hann í dag sagðist hann ekki vera til viðtals.
Jakob segir segir ljóst að aðstæður í þjóðfélaginu séu allt aðrar í dag en þær voru rétt eftir hrun þrátt fyrir að það gefi augaleið að um verulega háar greiðslur sé að ræða. „Þetta er kannski meira að fara í gang núna,“ segir hann og vísar til þess að bónusgreiðslurnar hjá ALMC þurfi ekki að vera einsdæmi á næstu misserum.
Aðspurður um andrúmsloftið í þjóðfélaginu í dag þar sem erfiðar kjaraviðræðum hafa m.a. staðið yfir segir hann greiðslurnar hjá ALMC lúta öðrum lögmálum. „Þarna eru erlendir aðilar sem eru að vinna fyrir erlenda aðila þrátt fyrir að hluti af þeim séu innlendir aðilar. Þetta lútir þeim lögmálum sem svona gerir erlendis,“ segir hann og bætir við að málið sé því ekki alveg sambærilegt öðrum. „Þetta er klárlega ekki einsdæmi á alþjóðlegum vettvangi.“
Aðspurður um grundvöllinn fyrir greiðslunum og útreikninga þar að bak við segir hann kerfið vera flókið en bætir við að greiðslurnar séu í takti við þann árangur sem félagið hefur náð.
Í frétt DV kemur fram að þeir lykilstjórnendur sem hafi fengið lang hæstu greiðslurnar séu Andrew Bernhardt, forstjóri ALMC, Óttar Pálsson, Jakob Ásmundsson og Christopher Perrin, stjórnarformaður ALMC.