Mikil aukning hefur orðið á undanförnum árum í orkuþörf vegna reksturs gagnavera hér á landi og tvöfaldaðist eftirspurnin rúmlega á síðasta ári vegna slíks reksturs. Þetta kom fram í máli Harðar Arnarssonar, forstjóra Landsvirkjunar, á kynningarfundi vegna ársreikninga félagsins sem fram fór í morgun. Hörður sagði engar opinberar tölur liggja fyrir í þessum efnum en það væri mat Landsvirkjunar að gagnaver nýttu í dag orku sem næmi um 30 megavöttum.
Hörður sagði gagnaverin þannig vera að koma sterk inn þó sú þróun gerðist hægt og rólega. Forsvarsmenn fyrirtækjanna væru ekki mikið að tjá sig opinberlega um það hvað þau væru að gera. „Við byrjuðum að tala um gagnaver svona 2006-7 en síðan gerðist ekkert og þá hélt fólk að það myndi ekkert gerast en það er svo sannarlega kominn sterkur undirliggjandi vöxtur í gagnaverum sem er mjög áhugaverð viðbótariðngrein,“ sagði hann ennfremur.
Vaxandi eftirspurn sé eftir orku meðal annars frá fyrirtækjum sem reka gagnaver. Hörður sagði þróunina sem átt hafi sér stað í þeim efnum hafa verið mjög áhugaverða. Margir hafi haft efasemdir um það fyrir nokkrum árum síðan að þessi iðnaður kæmi til Íslands en reynsla síðustu tveggja ára, sérstaklega síðasta árs, sýndi að hans mati að gagnaversiðnaðurinn væri kominn til landsins til að vera sem væri mjög ánægjulegt.
„Þetta er iðnaður sem mun í framtíðinni nýta meiri orku en áliðnaður á heimsvísu.“