Markmið Landsvirkjunar er að hægt verði að auka arðgreiðslur til ríkisins eftir 2-3 ár samhliða bættri skuldastöðu fyrirtækisins. Stefnt er að því að arðgreiðslurnar hækki þá úr 1,5 milljarði króna í 10-20 milljarða króna á ári. Þetta kom fram í máli Harðar Arnarssonar, forstjóra Landsvirkjunar, á kynningarfundi á vevgum fyrirtækisins í morgun.
Hörður sagði að Landsvirkjun hefði lagt áherslu á það á undanförnum árum að draga úr skuldsetningu fyrirtækisins og orðið vel ágengt í þeim efnum. Þannig hafa skuldir lækkað um rúmar 200 milljónir dollara á milli ára og væru nú í fyrsta sinn síðan 2005 komnar niður fyrir 2 milljarða dollara. Skuldsetningin hafi lækkað um 840 milljónir dollara frá 2009 eða um rúmlega 100 milljarða króna. Hörður rifjaði upp að skylda Landsvirkjunar væri að hámarka arðsemina af þeim auðlindum sem fyrirtækinu væri trúar fyrir.
„Við höfum þurft að leggja mikla áherslu á það að lækka skuldir eftir mikið framkvæmdaskeið,“ sagði Hörður. Þannig hafi 55% af fjármunum til að greiða niður skuldir, 40% í fjárfestingar og 1-2% í arðgreiðslur. „Þegar við náum hæfilegri skuldsetningu að mati markaðarins. Hæfileg skuldsetning er að okkar mati þegar við getum endurfjármagnað fyrirtækið stöðugt í gegnum aðgang að fjármálamörkuðum með hagkvæmum langtímalánum án ríkisábyrgðar.“ Þar væri átt við lán til lengri tíma en 7 ára. Við þær aðstæður yrði ekki lengur þörf í raun fyrir það að grynnka á skuldum. Það væri þó ákvörðun ríkisins.
Spurður hvort 20 milljarðar væru hámark í þessum efnum sagði Hörður svo ekki vera en það 10-20 milljarða vera tölu sem miðað væri við út frá núverandi forsendum. Þetta réðist allt hins vegar af ytri aðstæðum.