Hagnaður Landsbankans hf. á árinu 2015 nam 36,5 milljörðum króna eftir skatta, samanborið við 29,7 milljarða króna á árinu 2014. Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 14,8% á árinu 2015, samanborið við 12,5% árið 2014.
Kostnaðarhlutfall bankans lækkaði verulega milli ára eða úr 56% árið 2014 í 43,8% árið 2015.
Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að tekjur hans hafi aukist töluvert frá fyrra ári vegna aukinna umsvifa og hagstæðrar þróunar á fjármálamörkuðum. Útlán jukust um 13% milli ára á meðan efnahagsreikningurinn stækkaði innan við 2%. Nú ber hlutfallslega stærri hluti eigna Landsbankans vexti sem skilar sér í auknum vaxtatekjum, en hreinar vaxtatekjur jukust um rúma 4 milljarða króna milli ára. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans hækkuðu um 17% á milli ára.
Kemur það til vegna aukinna umsvifa í markaðsviðskiptum og eignastýringu auk breytinga á kortamarkaði, sem skila auknum þjónustutekjum en á sama tíma hefur kostnaður bankans vegna fjármögnunar kortaviðskipta aukist. Þá aukast aðrar rekstrartekjur um tæpa 6 milljarða króna vegna hagfelldrar þróunar á verðbréfamörkuðum og söluhagnaðar eigna.
Hreinar virðisbreytingar útlána skila tekjufærslu upp á 18 milljarða króna í uppgjörinu, fyrir skatta. Ástæðan er bakfærsla á eldri varúðarfærslu vegna óvissu sem var um gengistryggð lán, en er nú að baki og vegna aukinna gæða útlána bankans. Líkt og á árinu 2014 hafa jákvæðar virðisbreytingar því töluverð áhrif á hagnað bankans en árið 2014 var tekjufærsla vegna virðisbreytinga útlána 2 milljörðum króna hærri, eða um 20 millarðar króna fyrir skatta.
Laun og annar rekstrarkostnaður lækkaði um 1,5% frá fyrra ári. Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 1% en annar rekstrarkostnaður lækkaði um 5%.
Hagnaður fyrir skatta á árinu 2015 var 48,9 milljarðar króna samanborið við 39,5 milljarða króna 2014. Reiknaðir skattar, þar með talið sérstakur fjársýsluskattur á laun, eru 13,1 milljarður króna í uppgjöri fyrir 2015 samanborið við 10,5 milljarða króna árið 2014.
Heildareignir Landsbankans hækkuðu um 20,3 milljarða á milli ára og í árslok 2015 námu eignir bankans alls 1.119 milljörðum króna. Útlán jukust um 93 milljarða króna en aukningin er að stærstum hluta vegna aukinna íbúðarlána til einstaklinga ásamt auknum lánveitingum til fyrirtækja. Vanskilahlutfall heldur áfram að lækka en það var 1,8% í lok árs 2015, samanborið við 2,3% í lok árs 2014.
Í árslok 2015 voru innlán frá viðskiptavinum 559 milljarðar króna, samanborið við 551 milljarð í árslok 2014. Innlán jukust um 8 milljarða króna á árinu þrátt fyrir verulegt útflæði innlána til fjármálafyrirtækja í slitameðferð fyrir árslok 2015.
Eigið fé Landsbankans í árslok 2015 var 264,5 milljarðar króna, tæplega 14 milljörðum króna hærra en í árslok 2014, þrátt fyrir að í mars 2015 hafi Landsbankinn greitt 23,7 milljarða króna í arð til hluthafa.
Eiginfjárhlutfall (CAR) Landsbankans í árslok 2015 var 30,4% og hækkaði um tæplega 1 prósentustig frá fyrra ársuppgjöri. Eiginfjárviðmið Fjármálaeftirlitsins til Landsbankans er nú 21,8%.
Í tilkynningu bankans kemur fram að á aðalfundi Landsbankans, þann 14. apríl næstkomandi, verður lagt til að greiddur verði arður til hluthafa sem nemur 1,2 krónum á hlut, eða samtals 28,5 milljörðum króna. Arðgreiðslan nemur tæplega 80% af hagnaði ársins 2015.
„Landsbankanum gekk vel á árinu 2015 og það var góður gangur á nánast öllum sviðum. Tekjur bankans jukust töluvert frá fyrra ári og um leið lækkuðu rekstrargjöld. Dregið hefur úr óvissu og áhættu hjá bankanum,“ er haft eftir Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans í tilkynningu.
„Gæði eigna hafa aukist og fjármögnun bankans hefur styrkst með betra aðgengi að innlendum og erlendum lánamörkuðum. Lausafjárstaðan er sterk auk þess sem eiginfjárstaða bankans er hlutfallslega með því hæsta sem þekkist, þrátt fyrir háar arðgreiðslur. Samþætting Sparisjóðs Vestmannaeyja og Sparisjóðs Norðurlands við bankann gekk vel og styrkir Landsbankann enn frekar á landsbyggðinni.“
Að sögn Steinþórs hefur arðsemi eiginfjár bankans á undanförnum árum verið góð og fór árið 2015 vel fram úr væntingum. „Stórir og óvenjulegir liðir hafa þar haft töluverð áhrif. Þar er fyrst og fremst átt við tekjufærslur vegna virðisbreytingar útlána, en á árinu 2015 voru áhrif þeirra 13,5 milljarðar króna á hagnað eftir skatta og á árinu 2014 voru áhrifin um 14,9 milljarðar króna eftir skatta. Viðbúið er að hagnaður muni lækka töluvert á næstunni þar sem ekki er reiknað með áhrifum af þessum óvenjulegu liðum í rekstri bankans til framtíðar,“ er haft eftir Steinþóri.
„Stefna Landsbankans er að vera öflugur samherji viðskiptavina í fjármálum og að viðskiptavinir, eigendur og samfélagið allt njóti ávinnings af starfi bankans. Bankinn leggur áherslu á hagkvæman og skilvirkan rekstur og að arðsemin sé ásættanleg, þegar stórum og óvenjulegum liðum sleppir. Á sama tíma er það okkur kappsmál að veita viðskiptavinum fyrirmyndarþjónustu á samkeppnishæfum kjörum.“
Nefnir hann að í upphafi síðasta árs hafi bankinn sett sér nýja og metnaðarfulla stefnu til ársins 2020.
„Markvisst hefur verið unnið að því að innleiða stefnuna og lagt er mat á árangurinn með reglulegum hætti. Stefnan hefur þegar skilað eftirtektarverðum árangri, bæði fyrir viðskiptavini og fyrir bankann, og þessi árangur hefur að hluta komið fram í góðu uppgjöri bankans fyrir árið 2015.“