Slitastjórn Kaupþings þáði þóknun sem nam 288 milljónum króna á síðasta ári. Í slitastjórninni eiga sæti þrír fulltrúar, skipaðir af Héraðsdómi Reykjavíkur.
Þóknun slitastjórnarinnar hækkaði um ríflega 45% frá árinu 2014 þegar hún fékk greiddar 198 milljónir vegna vinnu sinnar í þágu slitabúsins. Þetta kemur fram í ársreikningi Kaupþings fyrir síðasta ár sem nú hefur verið birtur.
Í reikningnum kemur fram að rekstrarkostnaður slitabúsins hækkaði um nærri 140% milli ára. Þannig nam heildarrekstrarkostnaður þess 11,9 milljörðum króna í samanburði við tæpa 5 milljarða á árinu 2014. Mest munar þar um gríðarlega hækkun ráðgjafarkostnaðar en hann fór úr réttum 3 milljörðum króna í rúma 8,3 milljarða. Mest hækkun varð á lögfræðiráðgjöf sem fór úr ríflega milljarði króna árið 2014 í tæpa 3,4 milljarða 2015.