Samtök atvinnulífsins mótmæla aðdróttunum Samkeppniseftirlitsins um að eignarhald eða önnur aðkoma lífeyrissjóða að olíufélögum sé til þess fallið að hafa áhrif á eða draga úr samkeppni.
„Lífeyrissjóðirnir gæta hagsmuna almennings í landinu og yrði aldrei liðið að beita sér á þann hátt sem ýjað er að í skýrslu Samkeppniseftirlitsins. Engar vísbendingar fylgja heldur sem styðja málflutning eftirlitsins og hann því marklaus,“ segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins um frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins um eldsneytismarkaðinn.
Frétt mbl.is: SA rýnir í eldsneytisskýrslu
Frumniðurstöður skýrslunnar voru birtar í lok nóvember en þær geta tekið breytingum þar sem hagsmunaðilar hafa frest til 11. mars nk. til að skila athugasemdum.
Í skýrslunni segir að eignarhald banka, lífeyrissjóða og sjóða í tveimur stórum keppinautum á eldsneytismarkaðnum, þ.e. N1 og Skeljungi, sé áhyggjuefni en vissulega í takt við þróun á eignarhaldi í öðrum atvinnufyrirtækjum hér á landi eftir hrunið. Mikilvægt sé að tryggt verði að keppinautar á eldsneytismarkaði verði reknir sjálfstætt og án hagsmunaárekstra við eigendur sem eiga í öðrum keppinautum á sama markaði.
„Skýrslu Samkeppniseftirlitsins lýkur á hefðbundinn hátt með hótun um að ef annað dugi ekki verði tekin upp verðstýring á eldsneytismarkaði. Stofnunin mun því taka ákvörðun um hvaða starfsemi núverandi olíufyrirtækjum er heimilt að stunda og hvaða starfsemi þau þurfi að losa sig við, segir í umsögn SA.
„Samkeppniseftirlitið mun ákveða hverjir megi eiga olíufélög og hverjir ekki. Það mun ákveða hve margar bensínstöðvar mega vera og hvar. Það mun ákveða hvenær breyta megi verði og svo hvert verðið skuli verða. En það er engan veginn víst að þessar aðgerðir muni skila neytendum ábata sem stofnunin vonast eftir.“