Airbnb gestgjafar með 2,2 milljarða

Á tólf mánaðatímabili voru um 358 þúsund gistinætur á höfuðborgarsvæðinu …
Á tólf mánaðatímabili voru um 358 þúsund gistinætur á höfuðborgarsvæðinu seldar í gegnum Airbnb. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Í lok nóvember á árinu 2015 voru skráð gistirými á Airbnb í Reykjavík 2.681 en þau voru 1.188 í desember á árinu 2014 og hefur því skráðum gistirýmum þar fjölgað um 126 prósent á tæpu ári. 

Í nýrri skýrslu Íslandsbanka um ferðaþjónustuna er áætlað að á tólf mánaða tímabili, frá og með nóvember á árinu 2014, hafi um 358 þúsund gistinætur hafi verið seldar í gegnum Airbnb á höfuðborgarsvæðinu.

Til samanburðar nam fjöldi gistinótta hótela á höfuðborgarsvæðinu yfir sama tímabil um 1.782 þúsundum. Seldar gistinætur í gegnum Airbnb sem hlutfall af seldum gistinóttum hótela á höfuðborgarsvæðinu nema því um 20 prósentum.

Flestar gistinætur á Airbnb voru seldar í ágúst eða 63,2 þúsund. Til samanburðar voru 189 þúsund gistinætur seldar á hótelum á höfuðborgarsvæðinu í ágúst árið 2015 og voru seldar gistinætur á Airbnb því um 33 prósent, eða um þriðjungur, af þeim gistinóttum sem seldar voru á hótelum á sama tíma.

Þá seldust um 22 þúsund fleiri gistinætur í gegnum Airbnb í október á árinu 2015 en í sama mánuði árið áður. Nemur það um 225 prósent vexti eða rúmlega þreföldun. Yfir sama tímabil nam aukning í seldum gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu 29 prósentum. Að sögn Greiningar Íslandsbanka undirstrikar þetta þann mikla vöxt sem nú á sér stað í deilihagkerfinu

Meiri ástíðarsveiflur hjá Airbnb

Á 12 mánaða tímabili frá og með nóvember á árinu 2014 voru heildartekjur aðila með skráð gistirými á Airbnb í Reykjavík um 2,22 milljarðar en tekjur hótela á höfuðborgarsvæðinu yfir sama tímabil námu 14,5 milljörðum króna. Nema tekjur í gegnum Airbnb yfir 12 mánaða tímabil því rúmlega 15 prósentum af þeim tekjum sem hótelmarkaðurinn aflaði yfir sama tímabil.

Á fjögurra mánaða tímabili, frá og með júní á árinu 2015, námu tekjur aðila með gistirými á Airbnb um 1,35 milljöðrum króna eða um 61 prósenti af heildartekjum yfir 12 mánaða tímabil. Til samanburðar námu tekjur hótela á höfuðborgarsvæðinu frá og með júní á árinu 2015 um 51 prósenti af heildartekjum yfir sama 12 mánaða tímabil.

Samkvæmt því virðast vera meiri árstíðarsveiflur á Airbnb en á hótelmarkaðnum.

Meðallengd dvalar þeirra ferðamanna sem nýta sér Airbnb í Reykjavík er 3,3 nætur og er dvalartíminn lengri yfir kaldari mánuði ársins. Er þessi niðurstaða í takti við könnun sem Ferðamálastofa gerir á meðal erlendra ferðamanna sem hingað koma en flestir þeirra, eða 40,4 prósent, dvelja 3 til 4 nætur í Reykjavík og nágrenni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK