Hrein eign Lífeyrissjóðs bænda til greiðslu lífeyris hefur vaxið um 51% frá bankahruninu 2008, 20% umfram verðbólgu á tímabilinu. Eign sjóðsins var 30,6 milljarðar í lok ársins og hækkaði hún um 2,2 milljarða króna á milli ára, eða 7,5%.
Þetta var meðal þess sem kom fram á aðalfundi Lífeyrissjóðs bænda sem fram fór í dag í Bændahöllinni í Reykjavík, þar sem ársreikningar fyrir árið 2015 voru kynntir. Vakin er athygli á því í fréttatilkynningu að á síðasta ári hafi nýjar reglur um ársreikninga lífeyrissjóða tekið gildi, en samkvæmt þeim sé lífeyrissjóðum heimilt að meta skuldabréf miðað við kaupvirði eða markaðsvirði. Í uppgjörinu séu eignir sjóðsins miðaðar við kaupvirði.
Ef miðað sé við markaðsvirði eignasafns sé það 1,3 milljörðum hærra en fram komi í ársreikningnum. Hefði þessi óinnleysti gengishagnaður verið innleystur á árinu 2015 hefði ávöxtun ársins verið 2-4% hærri, eða allt að 12% raunávöxtun. Eignasafnið sé traust og horfur bjartar. Fjármagnstekjur lífeyrissjóðsins hafi numið rúmum 3 milljörðum króna og aukist um 1.148 milljónir króna á árinu, eða sem nemur 60,3%.