Segir Ólafíu seka um skuggastjórnun

Ásta Rut Jónasdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
Ásta Rut Jónasdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.

Ásta Rut Jónasdóttir, stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, telur að Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, hafi gerst sek um tilburði til skuggastjórnunar með ummælum sem hún lét falla í samtali við fréttastofu RÚV í dag. 

„Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur þegar komið sínum sjónarmiðum á framfæri við stjórn VÍS og við þurfum ekki frekari leiðbeiningar varðandi það,“ segir Ásta í samtali við mbl en stjórn lífeyrissjóðsins hefur skorað á stjórn VÍS um að draga tillögu sína um 5 milljarða króna arðgreiðslu til baka.

Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti hluthafi VÍS og á 9,27 prósent hlut í félaginu. VR á fjóra stjórnarmenn í lífeyrissjóðnum og líkt og Ólafía benti á í samtali við fréttastofu í dag koma lög og reglur í veg fyrir bein afskipti hennar af stjórn sjóðsins. Hún sagðist þó ætlast til þess að á gagnrýni hennar væri hlustað.

Áhersla á bætta stjórnarhætti

„Ummæli formanns eru um margt áhugaverð í ljósi þess að í leiðbeiningum um góða stjórnarhætti kemur fram að stjórnarmenn eigi að taka sjálfstæðar ákvarðanir í hverju máli fyrir sig enda eiga þeir ekki að gæta hagsmuna þeirra aðila sem studdu þá til stjórnarsetu,“ segir Ásta og bendir á að töluverð áhersla hafi verið lögð á bætta stjórnarhætti á síðustu árum og þá m.a. til þess að koma í veg fyrir skuggastjórnun.

Aðspurð hvort hún telji að Ólafía hafi gerst sek um slíkt svarar Ásta játandi. „Líklega yrði lítil ánægja með það ef atvinnurekendur eða fjármálaráðherra myndi segja þeim sem þeir hafa stutt í stjórnir lífeyrissjóða fyrir verkum,“ segir Ásta.

Aðspurð hvort stjórnin muni taka mið af gagnrýni Ólafíu ítrekar Ásta að lífeyrissjóðurinn hafi nú þegar komið sínum sjónarmiðum á framfæri.

Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mbl.is hefur ekki náðst í Herdísi Dröfn Fjeldsted, stjórnarformann VÍS.

Ólafía Rafnsdóttir, formaður VR.
Ólafía Rafnsdóttir, formaður VR.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK