Hækkun endurgreiðslu tryggir samkeppnishæfni

Velta kvikmyndaiðnaðarins frá 2011 til 2014 nam ríflega 50 milljörðum …
Velta kvikmyndaiðnaðarins frá 2011 til 2014 nam ríflega 50 milljörðum króna. Frá tökustað í Reynisfjöru. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Mikil samkeppni er á milli landa um að fá til sín kvikmyndaverkefni. Því er mikilvægt og hagkvæmt að viðhalda því vel heppnaða stuðningsumhverfi sem búið er að byggja upp hér á landi frá árinu 1999 til að tryggja samkeppnishæfni greinarinnar og stuðla að áframhaldandi vexti.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum Iðnaðarins. Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri samtakanna, fagnar ákvörðun iðnaðarráðherra, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, um að leggja fram frumvarp sem felur í sér hækkun á hlutfalli endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar á Íslandi úr 20% í 25% og framlengingu á lögunum um 5 ár. Ráðherrann tilkynnti ákvörðun sína á nýafstöðnu Iðnþingi SI.

Frétt mbl.is: Kvikmyndaendurgreiðsla hækkar í 25%

Í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi er endurgreiðslukerfið rakið ítarlega og niðurstöður rannsóknar benda eindregið til að sett markmið hafi náðst og gott betur segir í tilkynningu SI.

Kvikmyndaiðnaðurinn hefur vaxið mikið síðustu ár og á því tímabili sem var til skoðunar, árin 2011 til 2014, nam veltan ríflega 50 milljörðum króna. Talið er að bein og óbein störf séu alls um 3.100 í greininni.

Ein niðurstaða rannsóknarinnar er að tekjur ríkisins af kvikmyndaframleiðslu eru umtalsvert hærri en endurgreiðslurnar. Þá er ekki litið til margvíslegra óbeinna áhrifa, líkt og eflingu innlendrar menningar, kynningu á sögu lands og náttúru, aukinnar þekkingar og reynslu kvikmyndagerðamanna auk þeirra áhrifa sem vaxandi kvikmyndagerð á Íslandi kann að hafa á straum erlendra ferðamanna til landsins.

Skapar varanleg störf

„Samkeppnin er mikil við önnur lönd sem vilja laða til sín kvikmyndagerð með endurgreiðslum og með áformum um hækkun endurgreiðsluhlutfallsins erum við að nálgast það sem best gerist annars staðar,“ er haft eftir Almari.

„Sá mikli fjöldi erlendra kvikmyndaverkefna sem hefur komið hingað til lands á síðustu árum hefur lyft þekkingarstigi innlendra fyrirtækja á þessu sviði á hærra stig og gert þau jafnt og þétt hæfari til að taka að sér stærri og flóknari verkefni. Ein birtingarmynd þess er að innlend kvikmyndafyrirtæki geta nú í auknum mæli tekið að sér eftirvinnslu kvikmynda. Umsvif í greininni verða þannig ekki eins sveiflukennd og fleiri varanleg störf skapast sem styður enn frekar við vöxt greinarinnar,“ er haft eftir Almari.

Hér má sjá skýrslu Hagfræðistofnunar.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK