WOW air hefur óskað eftir lóð á Kársnesi í Kópavogi undir hótel ásamt ýmissi þjónustu tengdri þeirri starfsemi. Jafnframt hefur félagið áform um að reisa hótelíbúðir á hluta lóðarinnar tengdum rekstri og þjónustu hótelsins.
Hótelið verður þá í nágrenni við fyrirhugaðar höfuðstöðvar fyrirtækisins.
Erindi WOW var tekið fyrir á fundi bæjarráðs Kópavogs í byrjun mánaðarins og hyggst Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri, funda með Skúla Mogensen, forstjóra WOW, á föstudaginn og fara yfir málið.
WOW hefur óskað eftir því að viðræðum verði hraðað eins og kostur er, en að sögn Ármanns krefjast aðgerðir sem þessar deiliskipulagsbreytinga sem taka nokkra mánuði.
Hann segir málið vera á algjöru frumstigi og veit lítið annað en sem fram kemur í erindi WOW. „Þetta hljómar sem spennandi hugmynd og að sjálfsögðu er rætt við þá sem koma inn með slíkar hugmyndir,“ segir Ármann.
Í erindi WOW er óskað eftir lóðum númer 29 og 50 við Vesturvör undir hótelið en lóð 38 undir höfuðstöðvarnar. Áður hafði verið rætt um aðra lóð fyrir höfuðstöðvarnar en WOW segir hana ekki henta sökum gildandi skipulagsmála og þess tímaramma sem WOW air hefur sett verkinu.
Líkt og mbl greindi frá í morgun hefur Skúli stofnað fasteignafélagið Títan Fasteign ehf. en einkahlutafélag hans Títan ehf., heldur utan um eignarhlut Skúla í WOW.
Skúli Mogensen vildi ekki tjá sig um hóteláformin á Kársnesi þegar eftir því var leitað.
Ólíkt hóteláformunum er fyrirhuguðum höfuðstöðvum lýst nokkuð ítarlega í fyrra erindi WOW til Kópavogsbæjar. Þar segir að markiðið sé að byggja glæsilegar og nútímalegar höfuðstöðvar. Þar eigi að vera opin rými fyrir starfsfólk og áhersla verður lögð á tengsl mannvirkisins við sjávarsíðuna og náttúruna.
Hugmyndin er að í höfuðstöðvunum verði opin veitingasala og kaffitería með ókeypis nettengingu fyrir almenning. Í húsinu eiga þá einnig að vera opin rými sem gætu nýst fyrir listasýningar eða sambærilega menningarviðburði.