Íslenska ríkið hefur eignast 4% hlut í flugleitarvélinni Dohop í gegnum stöðuleikaframlag gamla Landsbankans. Áætlað verðmat Dohop er um 850 milljónir og er hlutur ríkisins því metinn á um fjörtíu milljónir króna.
RÚV greinir frá þessu. Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á 17,5% hlut í félaginu og segist í samtali við RÚV ekki hafa vitað af því að ríkið myndi eignast hlut í Dohop. „Ég hefði kannski átt að vita það,“ segir Frosti og bendir síðan á að hver sem er geti keypt og selt hluti í félaginu.
Frosti er formaður efnahags-og viðskiptanefndar sem fékk til umfjöllunar frumvarp fjármálaráðherra um hvernig eigi að standa að sölu þessara eigna.
Davíð Gunnarsson, framkvæmdastjóri Dohop, segir 4% hlutinn hafa komið til í gegnum uppgjör slitastjórnarinnar við hluthafa í félaginu.
Í fyrrnefndu frumvarpi er lagt til að sérstakt félag muni sjá um að annast umsýslu og að fullnusta og selja þær eignir sem eru hluti af stöðugleikaframlagi slitabúa fallina fjármálafyrirtækja.
Í nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarpið segir að fjármála- og efnahagsráðuneytið áætli að félagið nái að fullnusta 80% verðmæta innan 18 mánaða.
Í gegnum stöðuleikaframlögin hefur ríkið eignast eignarhluti í fleiri fyrirtækjum og má þar t.d. nefna 100% hlut í Lyfju.