Súkkulaðisérverslun á Granda og í Hjartagarðinum

Óskar Þórðarson, framkvæmdastjóri Omnom.
Óskar Þórðarson, framkvæmdastjóri Omnom. Styrmir Kári

Á undanförnum tveimur og hálfu ári hefur Omnom súkkulaðigerðin notið sívaxandi vinsælda og hefur framleiðslan verið aukin samhliða því. Frá upphafi hefur verksmiðjan verið í gömlu bensínstöðinni við Austurströnd en vegna plássleysis flytur fyrirtækið nú í byrjun maí út á Granda þar sem sérstök Omnom verslun verður einnig til staðar sem og kynningaraðstaða fyrir áhugasama. Í júní er svo stefnt að því að opna aðra sérverslun við nýja Canopy hótelið á Hverfisgötu, inn í Hjartagarðinum.

Vildi vita hvernig súkkulaði væri gert frá grunni

Omnom var stofnað árið 2013 af félögunum Óskari Þórðarsyni, Kjartani Gíslasyni, Karli Viggó Vigfússyni og André Visage. Óskar er framkvæmdastjóri og segir hann í samtali við mbl.is að þetta ævintýri hafi byrjað með hugmynd Kjartans sem hafi verið forvitinn um hvernig súkkulaði væri gert frá grunni. Hafði hann smakkað súkkulaði frá litlum sjálfstæðum framleiðanda á veitingastað í New York stuttu áður og þannig fór boltinn að rúlla.

Kjartan og Karl eru súkkulaðigerðarmenn fyrirtækisins, en André er hönnuður og sér meðal annars um allar umbúðir og innréttingar hjá fyrirtækinu. Omnom framleiðir súkkulaðið beint úr kakóbauninni í stað þess að flytja inn kakómassa.

Fyrirtækið framleiðir í dag 8 mismunandi tegundir. Kakóbaunirnar koma bæði …
Fyrirtækið framleiðir í dag 8 mismunandi tegundir. Kakóbaunirnar koma bæði frá Madagaskar og Tansaníu. Styrmir Kári

Segir Óskar að þeir hafi frá upphafi viljað færa matvælaframleiðsluna eins nálægt neytandanum og hægt væri. Segir hann vinsældir Omnom súkkulaðisins fylgja vinsældum sem svipuð hugmyndafræði hafi notið t.d. í tengslum við örbrugghús og kaffibrennslu sem hefur í mörgum tilfellum færst inn á kaffihúsin sjálf. „Við fengum áhuga á því að sjá hvort hægt væri að búa til súkkulaði í minna magni en ekki í stórri verksmiðju,“ segir Óskar og bætir við að það hafi tekist.

Frá 3 kíló súkkulaðivél í 240 kílóa og nú þarf meira

Þegar fyrstu súkkulaðiplöturnar fóru í sölu í nóvember 2013 segir Óskar að þeir hafi aðeins verið með 3 kílóa súkkulaðivél, en það tekur 3 til 4 daga fyrir súkkulaðið að verða tilbúið í slíkum vélum. Í dag eru þeir aftur á móti komnir með átta 30 kílóa vélar sem eru í gangi alla daga vikunnar. Segir hann að þrátt fyrir þessa fjölgun véla síðustu tvö ár þá verði á nýja staðnum búinn til jarðvegur til að margfalda framleiðsluna til að vera tilbúnir að mæta mögulegum vexti á næstu 3-5 árum.

Súkkulaðið í dag er framleitt í vélum eins og þessum, …
Súkkulaðið í dag er framleitt í vélum eins og þessum, en á næstunni mun Omnom auka framleiðslugetuna talsvert. Rax / Ragnar Axelsson

Nýja verksmiðjan verður á Hólmaslóð á Granda, en Óskar segir að með flutningunum fari fyrirtækið úr samtals 100 fermetrum í 550 fermetra. Fremst verður sérvörubúð fyrir Omnom vörurnar, en einnig verður hægt að fylgjast með framleiðslunni í gegnum glerglugga. Þá verður einnig eldhús, lager, starfmannaaðstaða og pökkun í húsinu að viðbættu kynningarrými þar sem Óskar segir að gestum gefist kostur á að fræðast um framleiðsluna frá baun og að súkkulaðistykki. „Við viljum og okkur finnst gaman að fræða fólk um hvaðan súkkulaðið kemur og hvernig það verður til,“ segir hann.

Sérverslun við Hjartagarðinn

Þann 1. júní er svo gert ráð fyrir að opna aðra sérverslun fyrirtækisins, en hún verður á svokölluðum Hljómalindarreit í miðbænum. Þar eru nú í gangi miklar framkvæmdir þar sem verið er að byggja nýtt hótel á vegum Icelandair hotels, en undir nafni Canopy Reykjavík.

Séð yfir Hljómalindarreit frá Laugavegi til austurs. Inn í búð …
Séð yfir Hljómalindarreit frá Laugavegi til austurs. Inn í búð Omnom verður bæði inngengt frá hótelinu og úr Hjartagarðinum.

Með fleiri súkkulaðitengdar vörur í þróun

Óskar segir að verkefnið hafi átt sér aðdraganda frá því seint á síðasta ári þegar fólk frá hótelinu kom í heimsókn til þeirra á Austurströndina. Þeim hafi litist vel á framleiðsluna og hugmyndina á bak við súkkulaðið og í kjölfarið hafi byrjað samræður um að koma með litla búð sem væri tengd hótelinu en einnig opin út í Hjartagarðinn þannig að hún væri opin fyrir gesti og gangandi líka. „Þarna verður Omnom súkkulaði í boði ásamt öðrum vörum sem eru í þróun hjá okkur, súkkulaðitengdum vörum,“ segir Óskar. Hann vill þó ekkert gefa upp að svo stödd um hvaða vörur er að ræða.

Hjá fyrirtækinu í dag starfa 10 manns, en Óskar segir að verið sé að ráða fleiri í þessum töluðu orðum og þá sé gert ráð fyrir að starfsmannafjöldinn verði kominn upp í 15 manns fyrir áramót þegar verksmiðjan verður komin á nýjan stað og búið að opna búðirnar tvær.

Í verksmiðjunni eru í dag framleiddar átta tegundir af súkkulaði og segir Óskar að alltaf sé verið að þróa nýjar hugmyndir og aðrar teknar úr sölu ef þeir séu ekki 100% sáttir. Þannig hafi kakóbaunir sem þeir fengu frá birgja Papúa Nýju Gíneu ekki verið nægjanlega stöðugar og því hafi verið hætt að kaupa þaðan. Í dag eru baunirnar sem fyrirtækið kaupir frá Madagasgar og Tansaníu en Óskar útilokar ekki að þeir fjölgi eða breyti samsetningunni þegar fram líða stundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK