Það er engin trygging fyrir því að einstaklingar sem leigja út íbúðir til ferðamanna leggi á gistináttagjald líkt og þeir eiga að gera. Ríkisskattstjóri hefur sett sig í samband við Airbnb og aðra sambærilega aðila til að gera þeim grein fyrir íslenskum reglum. Þetta kemur fram í frétt Túrista.
Gistináttaskattur hér á landi nemur 100 krónum og er hann lagður á sölu gistingar fyrir hvern sólarhring. Hótelstjóri sem leigir út fjörtíu herbergi í nótt þarf því að greiða 4000 krónur í gistináttagjald á morgun og sá sem leigir út 10 svefnpokapláss borgar þá 1000 krónur. Það er sem sagt ekki gerður munur á gæðum gistingarinnar og skatturinn er sá sami á stóra svítu og svefnpokapláss í koju. Víða erlendis tíðkast hins vegar þrepaskiptur hótelskattur og hann er þá hæstur á fimm stjörnu hótelum en lægstur á farfuglaheimilum.