Aprílgabb Google féll vægast sagt í grýttan jarðveg þetta árið. Fyrirtækið kynnti nýjan takka í Gmail þar sem notendur gátu sent tölvupóst ásamt hreyfimynd af skósveini úr teiknimyndinni Aulinn ég.
Í hreyfimyndinni, eða svokallaðri GIF-mynd, lætur skósveinninn hljóðnema falla í gólfið. Þetta átti að sögn Google að auðvelda notendum að eiga síðasta orðið í tölvupóstsamskiptum enda er þessi athöfn talin til marks um að samtali sé lokið.
Eftir að hafa sent hreyfimyndina sér viðkomandi ekki frekari samskipti eða tölvupósta.
Takkanum var hins vegar komið fyrir rétt við hliðina á hefðbundna takkanum sem notaður er til að senda tölvupóst og virðast margir annað hvort hafa ruglast eða freistast til þess að ýta á takkann af einskærri forvitni en þó án þess að vita hvað væri í gangi.
Google kynnti takkann á bloggsíðu sinni í gær en eftir nokkrar klukkustundir var síðan uppfærð. „Það lítur út fyrir að við höfum hrekkt okkur sjálf þetta árið,“ segir í færslunni núna. Þá segir að valkosturinn hafi frekar valdið fólki hausverk en komið því til að hlæja. Biðst fyrirtækið afsökunar á þessu.
Notendur hafa látið skoðanir sínar í ljós á samfélagsmiðlum og segja farir sínar ekki sléttar.
Í samtali við Business Insider segist Abdus Salam t.d. hafa átt í samskiptum við tilvonandi vinnuveitanda mánuðum saman áður en hann sendi óvart hreyfimyndina á mannauðsstjórann. Honum fannst það ekki fyndið og var samskiptunum lokið í kjölfarið.