Tveir þriðju stjórnenda aðildarfyrirtækja Samtaka atvinnulífsins (SA) telja líklegt að íslenska krónan verði framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar. Þriðjungur telur það ólíklegt. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem kynnt var á ársfundi SA í dag.
Fram kemur á vefsíðu SA að í öllum stærðarflokkum fyrirtækja telji meirihluti svarenda að krónan verði framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar. „Langflest stóru fyrirtækjanna telja líklegt að krónan verði framtíðargjaldmiðill þjóðarinnar (92%), þar á eftir koma örfyrirtækin (70%), þá meðalstór fyrirtæki (68%) og loks lítil fyrirtæki (58%).“
Ennfremur segir að svörunum hafi verið skipt í fjóra flokka eftir stærð þeirra fyrirtækja sem svarendur eru forsvarsmenn fyrir. Það er í örfyrirtæki (me færri en 10 starfsmenn), lítil fyrirtæki (með 10-49 starfsmenn, meðalstór fyrirtæki (með 50-249 starfsmenn) og stór fyrirtæki (með 250 starfsmenn eða fleiri).