Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hjá Fitch Ratings stendur óhögguð þrátt fyrir atburði liðinna daga og forsætisráðherraskipti. Aukin óvissa í stjórnmálum gæti þó verið til þess fallin að hafa áhrif á efnahagsstefnu Íslands og þar með lánshæfismat ríkissjóðs segir matsfyrirtækið.
Í nýrri lánshæfisskýrslu Fitch Ratings er farið yfir atburði liðinna daga og bent á að kosningar séu nærri miðað við yfirlýsingar ráðamanna. Stjórnmálin gætu því haft áhrif á lánshæfismat á komandi misserum.
Þá segir að samkvæmt núgildandi löggjöf standi að nota stöðugleikaframlög föllnu bankanna til niðurgreiðslu skulda. Væri þessu breytt gætu líkur á ofhitnun hagkerfisins aukist.
„Við teljum að áhættan sé þegar farin að koma fram,“ segir Fitch og bendir á að verðbólguþrýstingur fylgi nýlegum kjarasamningum.
Þá er bent á að Píratar séu leiðandi í skoðanakönnunum fyrir næstu alþingiskosningar og að flokkurinn hafi ekki gefið út efnahagsstefnu.
Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hjá Fitch er BBB+ með stöðugum horfum.