Sænski tískurisinn H&M tapaði á dögunum máli gegn fatakeðjunni G-Star sem er að hluta í eigu tónlistarmannsins Pharrell. Málið varðaði vörumerkið „Raw“ sem G-Star skráði árið 2005 og hefur notað síðan.
Deilurnar hafa staðið lengi yfir en G-Star stefndi H&M árið 2010 þegar sænska keðjan hóf að framleiða boli og hettupeysur með áletruninni „Raw Beat Experience“.
Taldi G-Star líklegt að orðið „Raw“ gæti valdið ruglingi hjá neytendum og að þeir gætu haldið að varan væri í raun framleidd af G-Star.
G-Star er hollenskt fyrirtæki og féllst áfrýjunardómstóll í Haag í Hollandi á málatilbúnað þeirra. Í dóminum er tekið fram að orðið „Raw“ sé stærra en önnur orð á fatnaðinum og veki sérstaka athygli.
Frétt The Fashion Law.