Hluti af Kardashian-genginu er á Íslandi og er því ekki úr vegi að líta á fjölskylduauðævin og áætlað virði þeirra. Það er hins vegar auðveldara sagt en gert að setja nákvæma tölu á ríkidæmið þar sem upphæðin virðist hækka á hverjum degi. Samkvæmt Forbes var Kim Kardashian metin á 28 milljónir dollara árið 2014 en fjárhæðin tvöfaldaðist hins vegar milli ára og nam 52,5 milljónum dollara í fyrra. Það jafngildir 6,5 milljörðum íslenskra króna.
Nýlegri tölur benda þá til þess að Kim sé í raun metin á 85 milljónir dollara í dag, vegna mikillar tekjuaukningar á seinni helmingi síðsta árs, eftir gríðarlegar vinsældir tveggja snjallsímaforrita sem hún gaf út. Það jafngildir 10,5 milljörðum íslenskra króna.
Hér verður eingöngu litið til auðæva systranna Kim og Kourtney ásamt eiginmanns hinnar fyrrnefndu, Kanye West, en þau eru öll stödd hér á landi. Það gæti þó komið einhverjum á óvart að Kris Jenner, móðir systranna frægu er metin á hæstu upphæðina, eða um 160 milljónir dollara. Það jafngildir 19,8 milljörðum króna.
Á frekar stuttum tíma hefur Kim byggt upp öflugt viðskiptaveldi og virðist hún betri en flestir í að umbreyta frægð í peninga. Hún nýtir alla umfjöllun og hana má í rauninni kalla atvinnustjörnu ef eitthvað er.
Frægðarsól hennar hefur risið á ógnarhraða frá árinu 2003 þegar fyrrverandi kærasti hennar Ray J gaf út kynlífsmyndband með parinu í aðalhlutverki. Myndbandið var gefið út án hennar samþykkis en eftir að afurðin hafði litið dagsins ljós og var komin á Internetið var lítið annað í stöðunni fyrir Kim en að fá að minnsta kosti hluta ágóðans í eigin hendur. Þrálátur orðrómur hefur þó verið um að Kim hafi sjálf staðið fyrir útgáfunni til að fá umfjöllunina en sannleikurinn í þessu mun líklega seint koma í ljós.
Samkvæmt dómaraúrskurði fékk hún loks fimm milljónir dollara, eða rúman hálfan milljarð króna, árið 2007 fyrir myndbandið.
Í dag er þetta mest selda kynlífsmyndband allra tíma og að sögn Vivid Entertainment, rétthafa myndbandsins, tekur salan reglulega kipp þegarKim vekur athygli í fjölmiðlum.
Á sama ári og Kim fékk dæmda greiðslu fyrir kynlífsmyndbandið, árið 2007, lönduðu hún og aðrir fjölskyldumeðlimir samning við sjónvarpsstöðina E! Network um raunveruleikaþáttinn Keeping Up with the Kardashians, sem ennþá er í gangi í dag.
Standa upptökur fyrir þáttinn m.a. yfir í heimsókninni á Íslandi. Samkvæmt frétt Refinery 29 fá Kardashian- og Jenner-systur auk foreldra þeirra 10 milljónir dollara, eða um 1,2 milljarða fyrir hverja þáttaröð. Um tuttugu þættir eru í hverri seríu og nemur því greiðslan um 500 þúsund dollurum, eða 62 milljónum króna, fyrir hvern þátt.
Kardashian hefur líkt og áður segir hagnýtt alla mögulega umfjöllun, gert sérsamninga við fjölmiðla og grætt á einkalífinu. Þegar hún skildi við fyrrverandi eiginmann sinn Kris Humphries árið 2011 hlaut hún viðurnefnið Professional divorce í fjölmiðlum, sem útleggst sem nokkurs konar atvinnumaður í skilnaði. Þau voru gift í 72 daga og Kim græddi um 2 milljónir dollara, eða tæplega 300 milljónir, af samningum við fjölmiðla um umfjallanir um brúðkaup þeirra og skilnað.
Þá hefur hún jafnframt rakað inn seðlum með svipuðum samningum við fjölmiðla um öll helstu augnablik í lífi hennar og núverandi eiginmannsins Kanye West.
Kim græðir þó ekki bara á því að vera fræg þar sem hún hefur einnig látið að sér kveða í viðskiptalífinu. Hún hefur m.a. framleitt tískulínu og ilmvötn og stofnaði vefsíðuna ShoeDazzle, sem er nokkurs konar áskriftarsíða fyrir skó.
Tvö öpp sem hún hefur nýlega gefið út hafa þá reynst gróðvænlegustu hugmyndirnar hingað til. Annað þeirra er leikurinn „Kim Kardashian: Hollywood“ þar sem leikmenn geta búið til sína eigin frægu persónu. Samkvæmt Think Gaming halar appið inn um 37 þúsund dollurum á hverjum degi. Þegar það kom út á árinu 2014 þénaði það um 200 milljónir dollara, eða 24,8 milljarða króna.
Í lok síðasta árs gaf hún síðan út appið „Kimoji“, sem er skírskotun til orðsins „Emoji“, sem aftur eru broskarlarnir sem hægt er að nota í snjallsímum. Í appinu eru 250 emoji-tákn sem vísa til Kim. Appið kostar 1,99 dollara, eða um 250 krónur og samkvæmt frétt NYPost voru um níu þúsund manns að sækja það á hverri einustu sekúndu eftir útgáfu. Appið var samkvæmt því að hala inn um einnni milljón dollara, eða um 124 milljónum króna, á hverri einustu mínútu.
Vinsældirnar voru slíkar að Appstore hrundi skömmu eftir úgáfuna.
Segja má að Kim sé orðin hálfgerð peningamaskína og áhugavert verður að fylgjast með þróun næstu ára miðað við stökkið á síðustu árum.
Kim gekk að eiga tónlistarmanninn Kanye West árið 2014. Hann á að baki farsælan og langan tónlistarferil og er auðugur samkvæmt því. Kanye þénaði ekki eins mikið og Kim á síðasta ári og peningarnir virðast ekki safnast eins hratt saman og hjá eiginkonunni en hann er þó ekki á flæðiskeri staddur þar sem West er metinn á um 145 milljónir dollara, eða tæpa 18 milljarða íslenskra króna.
Það vakti athygli í fyrra þegar West sagðist skulda 53 milljónir dollara og þrábað m.a. Mark Zuckerberg, stofnanda Facebook, um peninga.
Frétt mbl.is: Kanye West er stórskuldugur
Frétt mbl.is: Kanye þrábiður Zukerberg um peninga
Síðar kom hins vegar í ljós að West hefur fjárfest þessum 53 milljónum dollara í ýmsum verkefnum, þar á meðal Yeezy-skónum sem frægir eru hér á landi, og er því ekki um eiginlegar skuldir að ræða, heldur fjárfestingar sem skila sér mögulega að lokum.
Eftir fjölmiðlafárið í kringum yfirlýsingar West var Kim einnig fljót að stökkva til og benda á að hún gæti vel haldið sér og eiginmanninum uppi ef þess þyrfti. Hún birti færslu á Twitter og sagðist vera nýbúin að innleysa 80 milljóna dollara ávísun og færa 53 milljónir dollara inn á sameiginlegan reikning þeirra hjóna og vísaði þar með til fyrrnefndar upphæðar.
Ásamt þeim Kim og Kanye er elsta Kardashian systirin Kourtney einnig hér á landi. Hún situr ekki á sömu peningahrúgu og systir hennar en er þó ekki í slæmum málum og er metin á 20 milljónir dollara, eða um 2,5 milljarða króna.
Hún fær greitt fyrir að mæta í veislur og á ýmsa viðburði en mestar tekjur hefur hún af Keeping up with the Kardashians-raunveruleikaþættinum.
Kourtney virðist einnig hafa viðskiptavit í tískuheiminum og opnaði fyrir nokkrum árum barnafataverslunina Smooch auk þess sem hún á aðra fataverslun, ásamt systrum sínum, sem nefnist DASH.
Þá er hún með auglýsingasamning við nokkur merki og er m.a. talskona QuickTrim auk þess að vera höfundur metsölubókarinnar „Kardashian Konfidential“, sem fjallar um samnefnda fjölskyldu, líkt og nafnið gefur til kynna.