Gjaldþrotaskiptum hjá félaginu FG-5, sem áður var Gaumur, er lokið. Kröfurnar nema alls tæplega 38,7 milljörðum króna. Stærstu hluthafar félagsins voru Baugsfjölskyldan með um 97% hlut.
Skiptum var lokið hinn 22. mars sl. en félagið var úrskurðað gjaldþrota 18. september 2013.
Samþykktar veðkröfur námu alls 27,8 milljónum króna og þær fengust að fullu greiddar. Upp í restina, almennu kröfurnar, fengust hins vegar aðeins greiddar 14,8 milljónir króna, eða 0,067%.
Stærsta eign Gaums, síðar FG-5 ehf., var 75% hlutur í Baugi sem varð gjaldþrota sumarið 2009. Aðrar eignir Gaums voru meðal annars 1988 ehf., Aðföng, B2B ehf., B2B holding, Barney, Baugur Group hf., Bónus, Fjárfestingafélagið Gaumur ehf., Gaumur holding, Hagar, Hagkaup, Illum A/S, Stoðir Invest, Styrkur Invest, Thu Blasol og Verslunin Útilíf.
Baugsfjölskyldan átti 97% í Gaumi og þar af átti Jón Ásgeir Jóhannesson 41% hlut og var langstærsti hluthafinn.
Stærstu kröfuhafarnir eru þrotabú gamla Landsbanka Íslands, þrotabú Kaupþings og þrotabú Baugs, sem allir eru álíka stórir.
Fjölmörg Baugs-félög hafa farið í gjaldþrot á liðnum árum og nýlegasta dæmið er félagið BG Fasteignir ehf. Aðeins fékkst rúm ein milljón króna greidd upp í kröfurnar sem hljóðuðu upp á rúma sautján milljarða. Félagið var í eigu Baugs Group.
Félagið var stofnað árið 2006 og var þá skráð með lögheimili að Túngötu 6, í fyrrum höfuðstöðvum Baugs. Þegar Baugur Group var tekinn til gjaldþrotaskipta í mars 2009 skiptu hlutafélög með lögheimili á sama stað tugum. Í öllum tilfellum voru þessi félög að öllu eða mestu leyti í beinni eigu Baugs Group.