Niðurstaða í uppgjöri búa föllnu bankanna, lækkun erlendra skulda og almenn lækkun skulda ríkisins þýðir að undirstöður stöðugleika íslenska fjármálakerfisins hafa enn styrkst. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálastöðugleika sem Seðlabankinn birti í dag. Helst áhættan er enn losun hafta ásamt fleiri þáttum.
Í ritinu kemur fram að áhætta í fjármálakerfinu hafi minnkað frá því að síðasta útgáfa Fjármálastöðugleika kom út síðasta haust, einkum vegna nauðasamninga fallinna fjármálafyrirtækja. Uppgjör slitabúanna með nauðasamningum hafi eytt mögulegum neikvæðum áhrifum slitanna á gengi og fjármálastöðugleika. Aukið innflæði gjaldeyris, jákvæður vaxtamunur við útlönd og hagstæð efnahagsþróun hafi skapað góð skilyrði til losunar fjármagnshafta án umtalsverðra áhrifa á fjármálastöðugleika.
„Aðgerðin hafði það í för með sér að hreinar erlendar skuldir þjóðbúsins lækkuðu um sem nemur fimmtung af landsframleiðslu. Skuldir ríkissjóðs munu einnig lækka verulega í framhaldinu. Þessi niðurstaða hefur þegar skilað sér í auknu trausti á Íslandi og hækkun lánshæfismats ríkissjóðs,“ skrifar Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, í formála ritsins.
Áhætta í fjármálakerfinu um þessar mundir tengist einkum næstu skrefum í losun fjármagnshafta, óvissu í alþjóðlegum efnahagsmálum og vaxandi spennu í þjóðarbúskapnum.
Útboði aflandskróna fylgi áhætta en hún sé töluvert minni en áhætta sem tengdist uppgjöri búa föllnu bankanna. Um lægri fjárhæðir sé að tefla auk þess sem góð niðurstaða við uppgjör slitabúanna og kaup Seðlabankans á gjaldeyri undanfarin misseri dragi úr greiðslujafnaðarvanda sem fylgir losun fjármagnshafta, þ.m.t. á svokallaðar aflandskrónur.
„Eftir því sem þjóðarbúið og fjármálakerfið stendur sterkar því minni eru líkur á fjármagnsflótta. Að því leyti verða aðstæður til losunar fjármagnshafta vart betri en nú. Reyndar er orðið mjög brýnt að hefja losun gagnvart innlendum aðilum þar sem höftin valda vaxandi bjögun í þjóðarbúskapnum eins og birtist m.a. í gengishækkunarþrýstingi og hækkun eignaverðs. Þá er fjármagnsinnflæði hafið sem eykur enn á bjögunina og gerir losun fjármagnshafta brýnni en ella,“ skrifar seðlabankastjóri í formála sínum.
Skýr merki eru um aukna spennu í innlendum þjóðarbúskap með vaxandi hættu á að fjármálalegt ójafnvægi fylgi í kjölfarið, að mati Seðlabankans. Bent er á að samhliða hækkun húsnæðisverðs hafi hlutabréfaverð hækkað verulega. Þjóðarútgjöld jukust um 6,3% að raunvirði á síðasta ári, kaupmáttaraukning hefur sjaldan verið meiri og horfur eru á að hagvöxtur verði rúmlega 4% í ár.
Heildarskuldir einkageirans í hlutfalli við landsframleiðslu drógust saman árið 2015 og í lok árs voru þær svipaðar og um aldamótin. Lækkunin á hlutfallinu er sögð öðru fremur drifin áfram af aukinni landsframleiðslu. Skuldir heimila og fyrirtækja við innlenda aðila jukust að raunvirði á milli ára í fyrsta skipti frá falli fjármálakerfisins. Mjög hefur hægt á samdrætti skulda heimila að teknu tilliti til ráðstafana stjórnvalda í skuldamálum og raunvöxtur skulda fyrirtækja var 6%, sem er nokkuð yfir hagvexti.
Hrein eign heimila er rúmlega fimmfalt hærri en árlegar ráðstöfunartekjur og hækkun íbúðaverðs samhliða lækkun skulda hefur leitt til þess að veðsetningarhlutfall íbúðarhúsnæðis er lægra en það hefur verið á síðustu áratugum. Bætt staða heimila eykur svigrúm til aukinnar skuldsetningar á næstu misserum.
Hreint innstreymi fjármagns um nýfjárfestingarleiðina nam 76 ma.kr. í fyrra sem Seðlabankinn segir vísbendingu um aukna trú erlendra aðila á íslenskt efnahagslíf og aðgerðaáætlun um losun fjármagnshafta. Aukin nýfjárfesting á skuldabréfamarkaði hafi leitt til lækkunar langtímavaxta en vaxtaferill ríkisbréfa sé nánast flatur.
Þegar fram í sækir geti lágir langtímavextir leitt til minni sparnaðar og aukinnar skuldsetningar ríkis, fyrirtækja og heimila. Aukin skuldsetning auki hættu á því að viðsnúningur í fjármagnsflæði ógni fjármálastöðugleika. Erfitt sé að spá fyrir um þróun fjárflæðis erlendis frá en miðað við lága vexti erlendis og jákvæða efnahagsþróun innanlands megi búast við auknu flæði fjármagns til landsins.
Seðlabankinn hefur innleitt varúðarreglur til að vinna gegn óæskilegum áhrifum af óhóflegu innflæði fjármagns á viðnámsþrótt innlendra banka. Hann segir enn hættu á að fjármagnsinnflæði hafi neikvæð áhrif á stöðu sveitarfélaga, fyrirtækja og heimila vegna lántöku í erlendum gjaldmiðlum sem ekki er tengd við tekjur eða eignir í erlendum gjaldmiðlum.
„Lagafrumvarp sem heimilar Seðlabankanum að takmarka slíkar lánveitingar til að varðveita fjármálastöðugleika hefur verið lagt fram á Alþingi. Mikilvægt er að sú heimild verði lögfest fyrir losun fjármagnshafta,“ segir í riti bankans.