Þrátt fyrir að töluleg gögn sýni batnandi stöðu heimilanna virðist sem batinn sé ekki eins mikill þegar einstaklingar meta sjálfir eigin stöðu.
Þetta kemur fram í nýju riti Fjármálastöðugleika frá Seðlabanka Íslands. Vísað er til Evrópsku lífskjararannsóknarinnar frá árinu 2014 sem sýnir að um 48% íslenskra heimila áttu þá erfitt með að ná endum saman og lækkaði hlutfallið um 4 prósentur á milli ára.
Hlutfallið var að meðaltali 33% á árinu 2005 til 2007, en hækkaði síðan hratt í kjölfar fjármálaáfallsins árið 2008.
Í grein Seðlabankans segir að gera megi ráð fyrir að hlutfallið hafi eitthvað lækkað á síðasta ári og muni jafnframt lækka í ár. Það sé þó töluvert í land til að ná svipuðu hlutfalli og fyrir fjármálaáfallið.
Þá segir að það hljóti að teljast athyglisvert hversu margir töldu að þeir ættu erfitt með að ná endum saman eða næstum helmingur þeirra sem tóku þátt í könnuninni.
Hlutfallið er nánast það sama og árið 2010 þegar staða heimila var sem verst.
Ísland er ekki eina landið þar sem hátt hlutfall einstaklinga telur sig eiga erfitt með að ná endum saman. Til dæmis var hlutfallið 74% á Írlandi og 95% í Grikklandi á árinu 2014, þ.e. í löndum sem orðið hafa fyrir fjárhagslegum áföllum.
Hlutfallið getur þá einnig verið hátt í löndum sem hafa haft nokkuð stöðugan efnahag eins og í Frakklandi en þar var hlutfallið 62% á árinu 2014.
Algengara er þó að hlutfallið sé lægra í löndum þar sem efnahagssveiflur hafa verið minni. Athygli vekur hversu mikill munur er á Íslandi og t.d. Svíþjóð en hlutfall sænskra heimila sem töldu sig eiga erfitt með að ná endum saman á árinu 2014 var um 14%.