Möguleiki til að komast að samkomulagi um fríverslunarsamning milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins er að fjara út. Þetta segir Matthias Fekl, ráðherra erlendra viðskipta í Frakklandi.
Var hann spurður um möguleikann á því að slíkt samkomulag myndi nást áður en kjörtímabil Barack Obama, Bandaríkjaforseta, lýkur.
Samningurinn sem kallast TTIP (e. The Trans-Atlantic Trade and Investment Partnership) hefur verið mjög umdeildur í Evrópu, ekki síst í Þýskalandi, þar sem gagnrýnendur hafa sagt hann geta haft mikil áhrif á vinnumarkaðinn. Þá hefur leyndin í kringum viðræðurnar einnig verið gagnrýnd mikið.