Ríflega helmingur málanna sem voru keypt af erlendum huldumanni í fyrra eru til skoðunar hjá skattyfirvöldum. Gögnin voru keypt á 37 milljónir króna. Ríkisskattstjóri er að skoða mál 178 einstaklinga og skattrannsóknarstjóri er með 30 alvarlegustu málin. Í heildina voru þau rúmlega 400 talsins.
Skattrannsóknarstjóri fékk listann upphaflega í hendur og tók frá þrjátíu alvarlegustu málin. Rannsókn á þeim lýkur mögulega ekki fyrr en á næsta ári. Listinn sem stjórnvöld keyptu er hluti af lekanum frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca sem umfjöllunin um Panama-skjölin byggir á. Eftir rannsókn skattrannsóknarstjóra verður málunum mögulega vísað til lögreglu eða sérstaks saksóknara sem tekur ákvörðun um framhaldið.
Fleiri mál gætu hins vegar endað aftur hjá skattrannsóknarstjóra.
Ríkisskattstjóri fékk restina af gögnunum þegar málin þrjátíu höfðu verið tekin frá. Alls um 370 mál. Fyrstu yfirferð er nú lokið og hafa mál 178 einstaklinga verið tekin til sérstakrar skoðunar. Þá eru níutíu mál til viðbótar sem varða bæði einstaklinga og félög til skoðunar.
Að sögn Skúla Eggerts Þórðarsonar, ríkisskattstjóra, voru 57 einstaklingar á listanum annað hvort látnir eða fluttir úr landi. Ekki var talin ástæða til að skoða afganginn neitt frekar á þessum tímapunkti.
Samkvæmt þessu eru málin sem til skoðunar eru alls um 298 talsins, að meðtöldum þeim sem varða bæði einstaklinga og félög.
Skúli segist ekki getað útskýrt nákvæmlega hvernig úrtakið var valið en segir það fyrst og fremst vera byggt á samanburði við framtöl. Hann segir embættið eiga í samskiptum við hlutaðeigandi og vill ekki tjá sig um það frekar.
Bryndís Kristjánsdóttir, skattrannsóknarstjóri, sagði á dögunum í samtali við mbl að gögnin sem hafa verið birt í fjölmiðlum varði sömu mál og voru á aðkeypta listanum. Hins vegar virðist sem upplýsingarnar í gögnunum sem blaðamannasamtökin ICIJ búa yfir séu ítarlegri. Vonaðist Bryndís til að geta nýtt þau gögn við eigin rannsókn.
Greiðsla fyrir gögnin í fyrrasumar fór fram með millifærslu til þess að tryggja að farið yrði að reglum um peningaþvætti.
Ekki liggur fyrir til hvaða lands millifærslan var greidd eða til hvaða banka. Gögnin voru sótt erlendis og afhend þar með rafrænum hætti.