Hópuppsögn hjá Plain Vanilla

Þorsteinn B. Friðriksson hjá Plain Vanilla
Þorsteinn B. Friðriksson hjá Plain Vanilla mbl.is/Ómar Óskarsson

Tuttugu og sjö starfsmönnum Plain Vanilla hefur verið sagt upp störfum. Að sögn Þorsteins B. Friðrikssonar, forstjóra, starfaði fólkið vítt og breitt um fyrirtækið. Starfsmenn hafa verið sjötíu frá áramótum.

Þetta er líður í endurskipulagningu fyrirtækisins vegna aukinna umsvifa í Los Angeles að sögn Þorsteins. Þá ætlar fyrirtækið einnig að skila hagnaði á árinu og voru aðgerðirnar nauðsynlegar til þess.

Nú er verið að leggja lokahönd á spurningaþáttinn QuizUp í stúdíói sjónvarpsrisans NBC og fór prufukeyrsla á þættinum fram aðfaranótt fimmtudags að íslenskum tíma. Stefnt er að því að fyrsti þátturinn fari í loftið í september. Nú þegar starfa tíu manns á vegum Plain Vanilla við þróun þáttarins á vesturströndinni og hér heima og mun vinnan þar vestra aukast eftir því sem nær dregur frumsýningunni.

„Við höfum verið að vinna mjög náið með NBC undanfarið,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl. „Þetta verður mjög stórt verkefni og áhersla okkar á næstu mánuðum verður lögð á þennan sjónvarpsþátt.“

Ætla að skila hagnaði

Hann segir fyrirtækið einnig stefna að því að skila hagnaði á árinu en það hefur fyrritækið aldrei gert. „Við höfum stækkað mjög hratt í starfsmannatölu og til þess að eiga kosta á því að skila hagnaði og leggja áherslu á starfsemina í Bandaríkjunum þurftum við að ráðast í þessa endurskipulagningu.“

Engin svið innan fyrirtækisins voru lögð niður í endurskipulagningunni. „Við höldum áfram með leikinn og tekjur hafa aukist mikið af honum á liðnum mánuðum. Þetta er ansi dreift á milli sviða. Við þurfum að minnka rekstrarkostnaðinn hér á landi.“

„Til þess að skila hagnaði þarf að auka tekjur og minnka kostnað og við erum að gera bæði,“ segir Þorsteinn.

Frá prufukeyrslu Quiz Up þáttarins hjá NBC.
Frá prufukeyrslu Quiz Up þáttarins hjá NBC. Mynd/Plain Vanilla

Tilkynnt var um það í upphafi árs að Glu Mobile, sem sérhæfir sig í að framleiða leiki fyrir snjallsíma og spjaldtölvur, hefði fjárfest í Plain Vanilla fyrir 7,5 milljónir bandaríkjadala sem samsvarar tæpum einum milljarði króna.

Jafnframt öðlaðist Glu Mobile kauprétt á öllu hlutafé Plain Vanilla á fyrirfram umsömdu verði og er stefnt að sameiningu fyrirtækjanna, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, á næstu tólf mánuðum.

Frétt mbl.is: Skipulagsbreytingar hjá Plain Vanilla

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK