Artikolo ehf, nýtt íslenskt tísku- og nýsköpunarhús, sem ætlað er að vera miðstöð hönnunar, tísku og handverks á Íslandi, hefur tekið yfir rekstur alþjóðlegu tískuhátíðarinnar Reykjavik Fashion Festival, eða RFF. Jón Ólafsson var áður eigandi RFF.
Artikolo hefur jafnframt tekið yfir rekstur Reykjavik Fashion Academy, sem stendur fyrir margvíslegum námskeiðum og hyggst bjóða upp á nám í fatahönnun, auk þess sem það hefur tekið yfir fatamerkið E-label.
Stofnandi Artikolo og aðaleigandi er Kolfinna Von Arnardóttir fjárfestir, en hún er menntuð í tísku og almannatengslum frá Evrópska hönnunarháskólanum í Mílanó.
Meðal annarra hluthafa í Artikolo má nefna Upplifunarstofuna ehf, sem rekur m.a. Reykjavik Escape í Borgartúni, og Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliða í knattspyrnu og eiginkonu hans, Kristbjörgu Jónasdóttur sem búsett eru í Cardiff í Wales.
„Það er einstaklega spennandi að taka við Reykjavik Fashion Festival á þessum tímapunkti,“ er haft eftir Kolfinnu Von Arnardóttur, í tilkynningu,
„Hönnun og tíska er eitt af því sem gerir Ísland jafn spennandi og raun ber vitni í alþjóðlegri ferðamennsku og við hyggjumst styðja við hvers konar nýsköpun á því sviði í framtíðinni. Það sem íslenskt er og þjóðlegt er, þykir flott í dag og við erum stolt af því að hafa það verkefni með höndum að kynna íslenska tísku og hönnun fyrir útlendingum. Við nálgumst það verkefni af virðingu og auðmýkt og ætlum að gera okkar allra besta svo að vel takist til,“ bætir Kolfinna Von við.
Reykjavík Fashion Festival var stofnað árið 2009 fyrir tilstilli fjögurra íslenskra fatamerkja og hefur æ síðan verið mikilvægur vettvangur fyrir íslenska fatahönnuði. Markmið RFF er að markaðssetja og vekja athygli á íslenskri fatahönnun, þeirri þróun og tækifærum sem í henni felast.
Tæplega tvö hundruð manns koma að undirbúningi Reykjavik Fashion Festival ár hvert og stendur undirbúningur yfir í sex mánuði. Helstu samstarfsaðilar undanfarin ár hafa verið Icelandair, Icelandic Glacial, Reykjavíkurborg, Íslandsstofa og Höfuðborgarstofa.
Jón Ólafsson, annar af stofnendum Icelandic Glacial, hefur verið aðaleigandi RFF og RFA undafarin ár. Hann fagnar þessum tímamótum: „Það er sérstaklega ánægjulegt fyrir mig að sjá þetta barn taka skrefin í átt til fullorðinsáranna með þessum hætti. Ég hef alltaf verið sannfærður um sóknarmöguleika Reykjavik Fashion Festival og raunar Reykjavik Fashion Academy líka. Annir mínar erlendis gera það að verkum, að betra er að aðrir taki við keflinu og framtíðarsýn Artikolo og Kolfinnu Vonar er svo spennandi að ég horfi bjartsýnn fram á veg fyrir hönd íslenskrar tísku og hönnunar,“ er haft eftir honum í tilkynningu.
Tilkynnt verður á næstunni um tímasetningu hausthátíðar RFF, en ætlunin er að halda hátíðina tvisvar á ári, að voru og hausti, þegar fram líða stundir, líkt og gildir um helstu tískuhátíðir heims, svo sem í London og París.
Artikolo hyggst standa fyrir margvíslegum viðburðum til að halda merki íslenskrar tísku og hönnunar á lofti. Þannig mun fyrirtækið standa fyrir verðlaunasamkeppni ár hvert um titilinn Kjólameistari Íslands, í minningu Ingibjargar Hallgrímsdóttur kjólameistara sem lærði í Kaupmannahöfn og stofnaði klæðagerðina Elísu í Skipholti ásamt eiginmanni sínum Birni Guðmundssyni endurskoðanda og gaf hana svo Öryrkjabandalagi Íslands sem rak þar verndaðan vinnustað. Ingibjörg var um árabil formaður Félags íslenskra kjólameistara og heiðursfélagi í Félagi sveina og kjólameistara.
Auk þess er ætlunin að tískuhúsið verði bakhjarl margvíslegra sprotafyrirtækja á sviði tísku- og hönnunar hér á landi.
Þá verður á næstu dögum tilkynnt um frekari fjárfestingar Artikolo í íslenskri fatahönnun, auk þess sem greint verður frá fleiri fjárfestum sem koma að hinu nýja tískuhúsi sem ætlar sér landvinninga erlendis á komandi árum.