Tekjur Sigurðar skattskyldar á Íslandi

Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings.
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings. mbl.is/Ómar

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í síðustu viku íslenska ríkið af kröfum Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, sem krafðist þess að úrskurðir ríkisskattstjóra og yfirskattanefnfdar, þar sem endurákvörðuð voru gjöld Sigurðar gjaldárin 2007, 2008 og 2009, yrðu felldir úr gildi.

Í málinu var deilt um hvort skattleggja bæri tekjur af kauprétti á hlutabréfum í bankanum sem Sigurður fékk sem stjórnarlaun sbr. 16. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands eða sem almenn laun skv. 15. gr. tilvitnaðs samnings.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að kaupréttur Sigurðar hefði verið hluti af kjörum hans sem stjórnarmanns í Kaupþingi banka. Það var því niðurstaða dómsins að tekjur Sigurðar vegna kaupréttar hans á hlutabréfum í Kaupþingi hf. væru skattskyldar á Íslandi.

Mörg hundruð milljónir í laun

Sigurður krafðist ógildingar á úrskurði ríkisskattstjóra og úrskurði yfirskattanefndar, en með úrskurði nefndarinnar var staðfest sú niðurstaða ríkisskattstjóra að færa Sigurði til tekna sem stjórnarlaun 673.960.000 krónur tekjuárið 2006, 599.256.000 krónur tekjuárið 2007 og 328.048.000 krónur tekjuárið 2008, vegna kaupa hans á hlutabréfum í Kaupþingi, auk 25% álags.

Með úrskurði sínum staðfesti yfirskattanefnd þá niðurstöðu ríkisskattstjóra að hinn umdeildi kaupréttur, sem veittur var Sigurði á árunum 2004 til 2008, hafi verið veittur honum  á grundvelli stöðu hans og starfa sem stjórnarformanns Kaupþings hf. og að tekjur hans af kaupréttinum féllu því undir 16. gr. tvísköttunarsamnings á milli Íslands og Bretlands þar sem mælt er fyrir um stjórnarlaun. Af því leiddi að skattlagningarrétturinn vegna teknanna var talinn vera á Íslandi.

Í máli þessu greindi aðila ekki á um að Sigurður hafi verið búsettur í Bretlandi á þeim tíma sem skiptir máli. Þá er tölulegur þáttur málsins einnig óumdeildur.

Ríkisskattstjóri hóf skoðun á skattskilum Sigurðar á árinu 2005 sem lauk með úrskurði þann 21. desember 2012 og síðar úrskurði yfirskattanefndar þann 18. júní 2014.

Greiðslur og hlunnindi skuli skattleggjast á Íslandi

Ríkisskattstjóri fjallar um dóminn á heimasíðu sinni. Þar segir m.a., að í dómi héraðsdóms komi fram að samkvæmt lögum um hlutafélög skuli formaður félagsstjórnar ekki taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem teljist eðlilegur hluti starfa hans sem stjórnarformanns að undanskildum einstökum verkefnum sem stjórnin feli honum. Þau störf sem Sigurður tók að sér að inna samkvæmt ráðningarsamningi beri að skýra með hliðsjón þessu. 

Helsta verkefni Sigurðar var að samræma störf hinna ýmsu alþjóðlegu útibúa og dótturfyrirtækja, gegna starfi stjórnarformanns systur- og dótturfélaga og leita tækifæra til að þróa starfsemi bankans. 

Með vísan til þessa taldi dómurinn að greiðslur til Sigurðar og þar með talin þau hlunnindi sem honum voru veitt með kauprétti á hlutabréfum í bankanum væru hluti af greiðslum til Sigurðar fyrir stjórnarsetu í bankanum.  Ákvæði 16. gr. tvísköttunarsamnings á milli Íslands og Bretlands kveði á um að greiðslur og hlunnindi fyrir stjórnarsetu skuli skattleggjast í því ríki sem félagið sem greiðir launin sé heimilisfast.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK