Kraftaverk er orð sem Ramón Calderón, fyrrverandi forseti Real Madrid, segist hafa séð notað ítrekað um árangur íslenska landsliðsins í knattspyrnu og efnahagsviðsnúninginn eftir hrunið. Á ráðstefnu í Hörpu um viðskipti og fótbolta sagði Calderón að Ísland verði Davíð á móti mörgum Golíötum á Evrópumótinu í Frakklandi í næsta mánuði.
Calderón, sem var forseti spænska stórliðsins Real Madrid í þrjú ár frá 2006 til 2009, setti ráðstefnuna Viðskipti og fótbolti í Hörpu í morgun en hann er einn forsvarsmanna hennar. Í ræðu sinni sagðist hann hafa orðið ástfanginn af Íslandi. Þegar hann fór að kynna sér landið og því meira sem hann hugsaði um stöðu þess fannst honum það eiga lof skilið. Vísaði hann til efnahagsbatans eftir hrunið og ótrúlegan árangur íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á sama tíma.
Það kom Calderón ekki á óvart að Íslendingar stærðu sig ekki af velgengni sinni því hann hafi gert sér grein fyrir á langri ævi að snjallt fólk blési yfirleitt ekki í eigin lúður. Svar Íslendinga væri að hlutirnir hafi bara gerst en vitað væri að þeir gerðust hins vegar ekki sjálfkrafa.
Calderón sagðist hafa lesið margar fyrirsagnir um kraftaverk þegar efnahag og landsliðið landsins hefur verið lýst. Sjálfur sagðist hann ekki mjög trúaður á kraftaverk og sagði sögu af manni sem bað til guðs um aðstoð við að vinna happdrættisvinning til að lyfta sér úr fátækt. Einn daginn hafi guð talað til hans þegar hann var í kirkju. Guð hafi sagst vera boðinn og búinn að hjálpa honum en það væri erfitt ef hann eyddi ekki neinum peningum í happdrættismiða.
„Ég hafði áhuga á að vita hvaða happdrættismiða þið keyptuð,“ sagði Calderón um hvernig Íslendingar komust undan fjármálstorminum sem gekk yfir landið.
Íslendingar hafi kosið að fara leið sem hafði aldrei verið farin áður, mögulega vegna þess að þeim var hann nauðugur einn kostur. Þeir hafi síðan haft hugrekki til þess að takast á við afleiðingarnar. Líkti hann viðsnúningi Íslands við sjómenn sem stýrðu skipi í gegnum öldurót að öruggri höfn.
Forsetinn fyrrverandi sagði marga halda að þeir nái velgengni með þeim hæfileikum sem þeir fæddust með. Fordæmi Íslendinga sýni hins vegar að peningar og hæfileikar hafi enga þýðingu án þrautseigju, hvatningar og erfiði.
Sagði Calderón sögu af fyrsta ári sínu í embætti forseta Real Madrid árið 2006. Þá höfðu Madridingar ekki hampað titli í þrjú ár sem var fordæmalaust í sögu félagsins. Liðið hafi haft marga bestu knattspyrnumenn heims á þeim tíma; Zinedine Zidane, David Beckham, Robert Carlos og fleiri. Engu að síður hafði liðið misst eitthvað og þurfti á hugarfarsbreytingu að halda.
Stjórnendur liðsins létu meðal annars setja upp borða í búningsklefum liðsins sem á var letrað: „Ef við berjumst þá getum við tapað en ef við berjumst ekki þá erum við glataðir“. Í kjölfarið hafi Real unnið deildina tvö ár í röð.
„Borðarnir skoruðu engin mörk,“ sagði Calderón, en skilaboðin hafi hins vegar gert það.