Davíð gegn mörgum Golíötum

Ramón Calderón setti ráðstefnuna Viðskipti og fótbolti í morgun.
Ramón Calderón setti ráðstefnuna Viðskipti og fótbolti í morgun. mbl.is/Golli

Krafta­verk er orð sem Ramón Calderón, fyrr­ver­andi for­seti Real Madrid, seg­ist hafa séð notað ít­rekað um ár­ang­ur ís­lenska landsliðsins í knatt­spyrnu og efna­hagsviðsnún­ing­inn eft­ir hrunið. Á ráðstefnu í Hörpu um viðskipti og fót­bolta sagði Calderón að Ísland verði Davíð á móti mörg­um Golíöt­um á Evr­ópu­mót­inu í Frakklandi í næsta mánuði.

Calderón, sem var for­seti spænska stórliðsins Real Madrid í þrjú ár frá 2006 til 2009, setti ráðstefn­una Viðskipti og fót­bolti í Hörpu í morg­un en hann er einn for­svars­manna henn­ar. Í ræðu sinni sagðist hann hafa orðið ást­fang­inn af Íslandi. Þegar hann fór að kynna sér landið og því meira sem hann hugsaði um stöðu þess fannst hon­um það eiga lof skilið. Vísaði hann til efna­hags­bat­ans eft­ir hrunið og ótrú­leg­an ár­ang­ur ís­lenska karla­landsliðsins í knatt­spyrnu á sama tíma.

Vildi vita hvaða happ­drætt­ismiða Íslend­ing­ar keyptu

Það kom Calderón ekki á óvart að Íslend­ing­ar stærðu sig ekki af vel­gengni sinni því hann hafi gert sér grein fyr­ir á langri ævi að snjallt fólk blési yf­ir­leitt ekki í eig­in lúður. Svar Íslend­inga væri að hlut­irn­ir hafi bara gerst en vitað væri að þeir gerðust hins veg­ar ekki sjálf­krafa.

Calderón sagðist hafa lesið marg­ar fyr­ir­sagn­ir um krafta­verk þegar efna­hag og landsliðið lands­ins hef­ur verið lýst. Sjálf­ur sagðist hann ekki mjög trúaður á krafta­verk og sagði sögu af manni sem bað til guðs um aðstoð við að vinna happ­drætt­is­vinn­ing til að lyfta sér úr fá­tækt. Einn dag­inn hafi guð talað til hans þegar hann var í kirkju. Guð hafi sagst vera boðinn og bú­inn að hjálpa hon­um en það væri erfitt ef hann eyddi ekki nein­um pen­ing­um í happ­drætt­ismiða.

„Ég hafði áhuga á að vita hvaða happ­drætt­ismiða þið keyptuð,“ sagði Calderón um hvernig Íslend­ing­ar komust und­an fjár­mál­s­torm­in­um sem gekk yfir landið.

Íslend­ing­ar hafi kosið að fara leið sem hafði aldrei verið far­in áður, mögu­lega vegna þess að þeim var hann nauðugur einn kost­ur. Þeir hafi síðan haft hug­rekki til þess að tak­ast á við af­leiðing­arn­ar. Líkti hann viðsnún­ingi Íslands við sjó­menn sem stýrðu skipi í gegn­um öldurót að ör­uggri höfn.

Skila­boðin lögðu sitt af mörk­um

For­set­inn fyrr­ver­andi sagði marga halda að þeir nái vel­gengni með þeim hæfi­leik­um sem þeir fædd­ust með. For­dæmi Íslend­inga sýni hins veg­ar að pen­ing­ar og hæfi­leik­ar hafi enga þýðingu án þraut­seigju, hvatn­ing­ar og erfiði.

Sagði Calderón sögu af fyrsta ári sínu í embætti for­seta Real Madrid árið 2006. Þá höfðu Madriding­ar ekki hampað titli í þrjú ár sem var for­dæma­laust í sögu fé­lags­ins. Liðið hafi haft marga bestu knatt­spyrnu­menn heims á þeim tíma; Zinedine Zi­da­ne, Dav­id Beckham, Robert Car­los og fleiri. Engu að síður hafði liðið misst eitt­hvað og þurfti á hug­ar­fars­breyt­ingu að halda.

Stjórn­end­ur liðsins létu meðal ann­ars setja upp borða í bún­ings­klef­um liðsins sem á var letrað: „Ef við berj­umst þá get­um við tapað en ef við berj­umst ekki þá erum við glataðir“. Í kjöl­farið hafi Real unnið deild­ina tvö ár í röð.

„Borðarn­ir skoruðu eng­in mörk,“ sagði Calderón, en skila­boðin hafi hins veg­ar gert það. 

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, var einn frummælenda á ráðstefnunni í …
Dag­ur B. Eggerts­son, borg­ar­stjóri, var einn frum­mæl­enda á ráðstefn­unni í morg­un. mbl.is/​Golli
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK