Hvers vegna eru vextir hærri á Íslandi en í öðrum iðnríkjum þrátt fyrir að mæld verðbólga sé áþekk og þar á bæ? Þessari spurningu velti Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, meðal annars upp á fundi í morgun þar sem fjallað var um vaxtaákvörðun Seðlabankans í morgun þar sem ákveðið var að halda meginvöxtum óbreyttum í 5,75%.
Frétt mbl.is: Halda vöxtum óbreyttum
Þórarinn sagði skýringun á þessu vera þá að verðbólguvæntingar hefðu þráfaldlega verið yfir markmiði hér á landi í gegnum tíðina á sama tíma og hún hafi verið í eða undir markmiði í öðrum iðnríkjum. Hér væri ennfremur komin nokkur framleiðsluspenna á meðan enn væri fyrir hendi slaki í öðrum iðnríkjum og gert væri ráð fyrir að munurinn þar á milli ætti eftir að aukast enn frekar á þessu ári. Fram kom á fundinum að verðbólga hefði þó verið undir markmiði síðustu tvö ár.
Ennfremur væri vöxtur nafneftirspurnar og launaskostnaðar mun meiri hér en í öðrum iðnríkjum. Önnur iðnríki væru að glíma við allt annan vanda en Seðlabankinn. Þar væri vandamálið að reyna að ýta undir verðbólgu og komast hjá verðhjöðnun en hér á landi snerist verkefnið hins vegar um það að reyna að koma í veg fyrir að verðbólga yrði of mikil.
Seðlabankinn spáir því að verðbólga fari vaxandi og verði 4,5% á síðari hluta næsta árs en gangi það eftir er viðbúið að bankinn kunni að hækka vexti.