Súkkulaðiþörfin á það til að kvikna þegar beðið er í röð við kassann í matvöruverslunum og hafa eflaust einhverjir tekið eftir því undanfarna daga að gamla, góða Pipp súkkulaðið er ekki lengur á sínum stað.
„Við erum að einfalda vörumerkjaúrval okkar og Pipp súkkulaðið fer núna undir merki Síríus, sem er aðalvörumerkið okkar,“ segir Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Nóa Síríus. Piparmyntu Pipp heitir því eftirleiðis Síríus Pralín súkkulaði með myntufyllingu.
Spurður hvort nýja heitið sé ekki óþjálla en það gamla segir Auðjón að pralín sé alþjóðlegt heiti yfir fyllt súkkulaði. Það sé því meiri vörulýsing, en nafn og Síríus verði aðalnafn vörunnar. Hann viðurkennir þó að margir muni þó eflaust halda áfram að tala um Pipp. „Það reynir á sölu- og markaðsdeildina að kynna þetta vel til leiks, en það var passað vel upp á að sjónrænt séð þá ætti fólk að geta áttað sig á að því að þetta væri sama gamla, góða Pippið.“
Auðjón segir langa sögu á bak við Pipp vörumerkið og breytingin því óneitanlega erfið. „Það er búið að fylgja okkur lengi.“ Ekki sé hins vegar vitað nákvæmlega hvenær Pipp kom fyrst á markað.„Fróðir menn hérna í fyrirtækinu eru þó á því að það hafi verið upp úr 1960, svona á svipuðum tíma og frægðarsól Bítlanna fór að rísa.“
Fyrstu tvo áratugina sem Pipp var á markaði þá var framleiðslan erfið, þar sem tækin sem fyrirtækið átti réðu illa við að gera fyllt súkkulaði. „Þannig að eftirspurnin var meiri en framboðið. Þá var verslunum bara skammtað hvað þær fengu að selja og þá var bara að þekkja réttu mennina,“ segir hann og hlær. „Svo bættu menn úr því og síðan þá hafa flestir hafa getið fengið sitt Pipp þegar þeir vilja.“
Pipp nafnið átti lengi vel aðeins við um 40 g piparmyntusúkkulaði, á meðan að 100 g súkkulaði af sömu tegund hét „Piparmyntufyllt súkkulaði“. Um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar fjölgaði hins vegar í Pipp fjölskyldunni og við hafa bæst Pipp molar, 100 g stykki og bragðtegundir á borð við banana, lakkrís og karamellu.
Íslenskir matarbloggarar hafa verið ósparir við að nota Pippið í uppskriftir sínar og blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort ekki verði hætta á ruglingi þegar kemur að innkaupum í Pipp-uppskriftir. Auðjón telur svo ekki vera. „Það er ekki eins og við séum að hætta með vöruna,“ segir hann. „Nói er að nálgast 100 ára aldurinn og á svo löngum tíma þá hafa komið inn mörg stök vörumerki sem má segja að hafi kannski ekki alveg passað í vörumerkjalínuna.“
Eflaust verði þó einhverjir hissa að sjá ekki lengur Pippið sitt og verður því markaðsefni sett í verslanir á næstu mánuðum sem mun benda fólki á að nýja Síríus súkkulaðið sé gamla Pipp súkkulaðið.
Ekki er svo ýkja langt síðan Nói Síríus hætti framleiðslu á Nizza súkkulaði og segir Auðjón þá ákvörðun vera af sama meiði og þau umskipti hafi gengið vel. „Þar vorum við með sérstakt vörumerki fyrir sama súkkulaðið. Þetta súkkulaði var til sem Síríus súkkulaði í 100 g plötum og í 20 g Síríuslengjunni, en svo hafði 46 g stykkið sér nafn.“
„Til skamms tíma getur þetta ruglað fólk, en til lengri tíma litið þá held ég að það skili sér fyrir neytendur að straumlínulaga vörumerkin.“
Spurður hvort ekki sé ástæða til að friða einfaldlega þetta hálfrar aldar gamla súkkulaði hlær Auðjón. „Við pössum okkur á því að geyma allar gamlar umbúðir svo að sagan hverfi ekki. Menn reyna að halda vel í söguna því að það eru ekki mörg framleiðslufyrirtækið á Íslandi með þetta langa sögu.“