Fyrirtækið Johan Rönning var valið fyrirtæki ársins í flokki stærri fyrirtækja í árlegri könnun VR, en þetta er fimmta árið í röð sem fyrirtækið tekur fyrsta sætið. Expectus var í fyrsta sæti í flokki millistórra fyrirtækja og Vinnuföt sigraði í flokki minni fyrirtækja.
Hástökkvarar milli ára eru Klettur - sala og þjónustu í flokki stórra fyrirtækja, Fastus í hópi millistórra fyrirtækja og Karl K. Karlsson í hópi minni fyrirtækja.
VR hefur tilnefnt Fyrirtæki ársins árlega í tvo áratugi á grundvelli könnunar meðal félagsmanna og fjölda annarra starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Alls fengu um 35 þúsund starfsmenn á almenna vinnumarkaðnum senda könnun í ár og hafa aldrei verið fleiri. Um tólf þúsund svör bárust frá starfsmönnum eitt þúsund fyrirtækja. Gerð er krafa um 35% lágmarkssvörun í könnuninni, að öðrum kosti eru niðurstöður fyrirtækisins ekki birtar. Alls uppfylltu 225 fyrirtæki þá kröfu og byggir val á Fyrirtæki ársins á viðhorfi starfsmanna þessara fyrirtækja.
Tíu efstu fyrirtækin í hverjum stærðarflokki fyrir sig eru Fyrirmyndarfyrirtæki. Hægt er að sjá lista yfir öll fyrirtækin og stöðu þeirra í könnuninni hér.