Ekki eru allir á eitt sáttir við ákvörðun Nóa Síríus um að breyta nafni og umbúðum Pipp súkkulaðisins. Eftir að frétt mbl.is, frá því á miðvikudag, um málið var birt á Facebook-síðu Nóa Síríus hefur fjöldi fólks lýst vanþóknun sinni á ákvörðuninni. Pipp kom á markað á sjöunda áratugnum.
„Þetta er hrikalega vond breyting,“ skrifar óánægður viðskiptavinur á Facebook-síðuna. „Þið eruð sem sagt með rúmlega hálfrar aldar vörumerki sem ALLIR þekkja - og ykkur finnst rosa sniðugt að henda því?“ skrifar annar og fleiri taka í sama streng. „Ég hata nafnabreytinguna og mér þykir breyting útlitsins hræðileg langar ekkert í Pipp eftir hana.“
Þá eru þónokkrir sem setja spurningarmerki við nýtt nafn súkkulaðsins, þar sem það heitir nú Síríus Pralín súkkulaði með myntufyllingu.
„Hérna.. hvernig getið þið verið markaðsfólk hjá sælgætisfabrikku og ekki vitað hvað praline er? Þið áttið ykkur á að túristarnir sem ég held að þið séuð að höfða til verða massafúlir og finnst þeir hafa verið sviknir þegar það er svo bara sykursósa inni í súkkulaðinu? Og hvað með allar Pipp-uppskriftirnar? Á Pipp-ostakaka ( flott, þjált nafn) núna að heita síríussúkkulaðipralínmeðmyntufyllingu-ostakaka? Really? Sorrí, en úr hvaða kornflexpakka kom markaðsgráða þess sem ákvað þetta?“ segir einn óánægður viðskiptavinur, en athugasemdinni er svarað af Facebook-síðu Nóa Síríus:
„Pralín, líkt og núggat, hefur fleiri en eina merkingu. Franskar pralínur eru stökkar möndlukaramellur, sem eiga sér hliðstæðu með ýmsum tegundum af hnetum. Frá Belgíu koma svo súkkulaði pralínur, sem eru fylltir konfektmolar, jafnan með mjúkri fyllingu – og það er sú skilgreining sem almennt er notuð í heiminum af sælgætisframleiðendum.“
mbl.is leitaði álits hjá einum helsta súkkulaðisérfræðingi landsins, Hafliða Ragnarssyni, bakara og konfektgerðarmanni, sem segir pralín venjulega hafa töluvert aðra merkingu en þá sem vísað er í af Nóa Síríus.
„Ég sé engan veginn hvernig þetta tengist en það getur vel verið að þeir séu með einhverja sögulega skírskotun. Pralín hefur stundum verið notað yfir konfektmola og síðan er praline heiti yfir hnetur sem eru maukaðar niður með smá sykri og hægt er að fá í mismunandi styrkleika. En inni í molunum hjá Nóa Síríus er fondant sem á ekkert skilið við praline,“ segir Hafliði. „Þetta er að minnsta kosti eins og ég lærði um pralín svo mér fannst þetta mjög skrítið.“
Hafliði segir þó að mismunandi tegundir séu til af pralín og ekki sé í sjálfu sér óeðlilegt að breyta nafni á vöru með þessum hætti. Hann bendir þó á að reglur hér á landi séu alls ekki skýrar um slíkt. „Orðið súkkulaði er til dæmis mjög misskilið nafn. Erlendis er það oft þannig að það má ekki nota orðið súkkulaði nema varan innihaldi kakósmjör ofl. Það eru því gerðar miklar kröfur oft á tíðum. En í bakaríum hér er til dæmis oft talað um snúða með súkkulaði, þó þeir séu í raun bara með glassúr með kakói í, sem á ekkert skilið við súkkulaði,“ segir hann. „Almennt er orðið súkkulaði því mjög laust í reipunum hér á landi sérstaklega.“
Auðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Nóa Síríus, sagði í samtali við mbl.is á miðvikudag að breytingin væri liður í því að einfalda vörumerkjaúrval Nóa Síríus. „Til skamms tíma getur þetta ruglað fólk, en til lengri tíma litið þá held ég að það skili sér fyrir neytendur að straumlínulaga vörumerkin,“ sagði hann.
Þá viðurkenndi hann að margir myndu eflaust halda áfram að tala um Pipp. „Það reynir á sölu- og markaðsdeildina að kynna þetta vel til leiks, en það var passað vel upp á að sjónrænt séð þá ætti fólk að geta áttað sig á að því að þetta væri sama gamla, góða Pippið.“