Vísbendingar eru um að staða háskólamenntaðra á vinnumarkaði fari versnandi og að fjárhagslegur ábati af háskólanámi fari minnkandi. „Nám er auðvitað ekki bara peningalegur ávinningur en auðvitað er fúlt að fara í háskólanám og fá ekkert starf við hæfi,“ segir Katrín Ólafsdóttir, doktor í vinnumarkaðshagfræði og lektor við Háskólann í Reykjavík.
Katrín var með erindi um stöðu háskólamenntaðra á vinnumarkaði á málþingi BHM í dag. BHM segir aðstæður ungs háskólamenntaðs fólks vera um margt öðruvísi nú en þær voru fyrir áratug og hvað þá ef horft er lengra aftur í tímann. Fjölgun háskólamenntaðra á vinnumarkaði hafi leitt til þess að samkeppni um störf þar sem krafist er háskólamenntunar hafi aukist. Vísbendingar séu um að menntun skili ekki sama ábata og áður og sýna tölur að ábatinn er almennt minni hér á landi en í öðrum löndum innan OECD.
Katrín telur ekki hægt að segja að ástandið sé orðið slæmt í dag heldur sé réttara að segja að viðvörunarljós séu logandi. „Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða áður en úr því verður alvöru vandamál,“ segir Katrín.
Hún bendir á að mun fleiri séu að sækja sér háskólamenntun í dag og að nauðsynlegt sé að huga að því hvort vinnumarkaðurinn geti tekið á móti þessu fólki. Flest störfin sem orðið hafa til á síðustu árum séu í ferðaþjónustu og stóriðju þar sem háskólamenntunar er oftast ekki krafist.
„Vinnumarkaðurinn hefur breyst mjög mikið frá hruni og það eru ekki sömu störf sem eru verða til og þau sem hurfu í hruninu. Uppbyggingin virðist mikið vera í þeim geirum sem ekki krefjast háskólamenntunar.“
Katrín segir að Íslendingar þurfi að vera meðvitaðir um þetta.
Aðspurð hvort það borgi sig síður að fara í nám í dag bendir Katrín á að umræðan um þetta sé hafin í Bandaríkjunum. „Þar eru skuldir eftir háskólanám mjög miklar og launamunurinn, það er ávinningurinn sem þú hefur af háskólanámi, hefur farið minnkandi. Auðvitað færðu fleira út úr háskólanámi, líkt og aðra lífssýn, en út frá peningalegu sjónarhorni er staðan svona,“ segir hún.
Aðspurð hvort þetta eigi einnig við á Íslandi segist Katrín vera þeirrar skoðunar að fólk eigi alltaf að drífa sig í nám hafi það gaman að því. Hins vegar geti það verið fúlt að fá ekkert starf við hæfi eftir útskrift.
Hún bendir á að umræða um sérstaklega slæma stöðu innan lögfræðistéttarinnar hafi verið áberandi en segist ekki vita hvað búi þar að baki. Þá segir hún flesta viðskiptafræðinga sem útskrifast frá Háskólanum í Reykjavík vera að fá vinnu. „Maður veit ekki alveg hvar þetta liggur,“ segir hún og vísar til tölfræðinnar er sýnir að atvinnuleysi hjá háskólamenntuðum hafi ekki minnkað með sama hætti og hjá öðrum eftir hrun. Þá virðist þeim einnig fjölga sem einfaldlega fara út af vinnumarkaðnum eftir háskólanám.
„Það er ekki eins bjart framundan og maður myndi vilja,“ segir hún og bætir við að mikilvægt sé að huga að því hvernig bjóða megi háskólamenntuðum upp á fleiri tækifæri.
Katrín segir nauðsynlegt að búa til betri leikvang fyrir atvinnulífið. „Þannig að menn vilji stofna fyrirtæki og finna sína hillu. Fjármagnshöftin eru að trufla þetta núna en á meðan ekkert er gert eigum við á hættu að þessir einstaklingar flytji til útlandi og komi ekki aftur ef tækifærin reynast betri annars staðar,“ segir hún.
„Þá erum við að leggja út í kostnað við að mennta fólk sem við fáum ekki til baka,“ segir Katrín og bætir við að þessi hætta sé raunveruleg.