Aldrei beðið um samkeppnismat

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Forsvarsmenn Landspítalans hafa gagnrýnt samkeppnismatið og …
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Forsvarsmenn Landspítalans hafa gagnrýnt samkeppnismatið og sagt það hindra samkeppni. Að sögn forstjóra Ríkiskaupa hefur spítalinn aldrei látið á það reyna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Landspítalinn hefur ekki leitað til Ríkiskaupa um gerð á samkeppnismati fyrir útboð erlendis. Matið er nauðsynlegt samkvæmt núgildandi lögum en spítalinn hefur frá upphafi lagst gegn því. Forstjóri Ríkiskaupa telur misskilnings gæta hjá forsvarsmönnum Landspítalans.

„Við eigum í mjög góðu samstarfi við Landspítalann en hins vegar hefur ekki reynt á þetta samkeppnismat í samstarfi við þá,“ segir Hall­dór Sig­urðsson, for­stjóri Rík­is­kaupa, í samtali við mbl. 

Líkt og fram hefur komið hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, gagnrýnt Landspítalann fyrir að hafa mögulega ekki látið reyna á matið sem kom inn í lög um opinber innkaup að tillögu Samkeppniseftirlitsins árið 2011. 

Frétt mbl.is: Mjög al­var­legt ef spít­al­inn fór í fýlu

Landspítalinn sendi frá sér yfirlýsingu á miðvikudaginn og sögðust forsvarsmenn hafa í samvinnu við velferðarráðuneytið leitað eftir samstarfi við aðrar þjóðir um útboð. Það hafi ekki gengið vegna samkeppnismatsins sem aðrar þjóðir hafa sett fyrir sig að sögn Landspítalans.

Frétt mbl.is: Land­spít­al­inn svar­ar fyr­ir sig

Guðlaugur hefur aftur svarað þessu og bent á að spítalinn hefði átt að leita til Ríkiskaupa en ekki ráðuneytisins.

Frétt mbl.is: Landspítalinn bankar á rangar dyr

Verklagið komið en ekki reynt á það

Halldór telur misskilnings gæta hjá Landspítalanum og bendir á að samkeppnismatið, sem er fyrir íslenskan markað, þurfi ekki að framkvæma í samvinnu við aðrar þjóðir. 

Það sem eigi að gera er að hafa samband við Ríkiskaup sem framkvæmir matið í samvinnu við Samkeppniseftirlitið. Telur Halldór þetta tiltölulega einfalda aðgerð.

Samkeppnismat sem þetta hefur ekki verið fullklárað fyrir neina stofnun með þeim hætti að varan eða þjónustan hafi endað í innkaupum. Hins vegar hefur verkferlum verið komið upp.

Það var gert þegar Ríkislögreglustjóri leitaði til Ríkiskaupa vegna mögulegs útboðs sem þó var að lokum ekki klárað. „En það er búið að búa til þetta ferli þrátt fyrir að á það hafi ekki reynt,“ segir Halldór og bætir við að Ríkiskaup hafi komið upp góðu samstarfi við Samkeppniseftirlitið vegna þessa.

Flókin útboð óháð matinu

Halldór segir lyfjaútboð í samstarfi við erlenda spítala vera flókin. Burt séð frá 18. gr. a) laga um opinber innkaup, sem kveður á um fyrrnefnt samkeppnismat. Lyfjakaup Landspítalans þurfi að falla alveg að lyfjakaupum erlenda spítalans, m.a. hvað tíma varðar, og þannig geta skapast vandamál. Það komi samkeppnismatinu hins vegar ekki við.

Samkvæmt frumvarpi til nýrra laga um opinber innkaup stendur til að fella út 18. gr. a) um samkeppnismat og hafa Samkeppniseftirlitið og Félag atvinnurekenda mótmælt því.

Veltir tilganginum fyrir sér

Halldór bendir á að þarna sé verið að innleiða evrópska tilskipun sem kveður á um að ekki megi hindra þátttöku í erlendu útboðssamstarfi. Jafnvel þótt samkeppnismat fari fram megi þar með ekki hindra samstarfið, burt séð frá því hvort niðurstaða samkeppnismatsins sé neikvæð.

„Þá veltir maður tilganginum með þessu ákvæði fyrir sér og hvort verið sé að flækja kerfið of mikið. Það er skiljanlegt að Samkeppniseftirlitið vilji skoða hvaða áhrif það hefur þegar stórkaupandi fer með mikil viðskipti til útlanda og áhrifin sem það hefur á smásölumarkaðinn og íslenska neytendur,“ segir Halldór en ítrekar að framkvæmd samkeppnismatsins ætti þó að vera einföld aðgerð.

Forstjóri Ríkiskaupa telur Landspítalann hafa misskilið framkvæmd samkeppnismatsins.
Forstjóri Ríkiskaupa telur Landspítalann hafa misskilið framkvæmd samkeppnismatsins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, telur það vera alvarlegt mál …
Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, telur það vera alvarlegt mál að spítalinn hafi ekki látið reyna á heimildina. Það gæti kostað mikla peninga. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK