Gjaldþrotaskiptum á þrotabúi félagsins BG Holding ehf. er lokið og fékkst ekkert greitt upp í lýstar kröfur er námu rúmum 130 milljörðum króna. BG Holding var dótturfélag Baugs Group hf. en meðal fjárfestinga félagsins voru matvöruverslanirnar Iceland Foods, verslunarmiðstöðvar House of Fraser og leikfangaverslanir Hamleys.
Stjórn Baugs óskaði eftir upphaflega eftir greiðslustöðvun hjá BG Holding, Baugi og fleiri tengdum félögum í Englandi í mars 2009. BG Holding var síðan úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur þremur árum síðar.
Í tilkynningu frá BG Holding á árinu 2009, þegar óskað var eftir greiðslustöðvun, sagði að skilanefnd Landsbanka Íslands væri stærsti kröfuhafi félagsins. Þar sagði að skilanefndin og Baugur hefðu um nokkra hríð leitað leiða til lausnar á fjárhagsvandanum sem steðjaði að BG Holding.
Síðasti ársreikningur félagsins er frá árinu 2006 og sátu Stefán Hilmar Hilmarsson og Skarphéðinn Berg Steinarsson þá í stjórn þess en báðir voru þeir stjórnendur hjá Baugi. Var allt hlutafé félagsins í eigu Baugs Group hf.
Í ársreikningnum kemur fram að hagnaður ársins hafi numið um 45,5 milljónum breskra punda, eða sem jafngildir 8,2 milljörðum króna á núverandi gengi.
Gjaldþrotaskiptum hjá Baugsfélögunum er óðum að ljúka en í síðasta mánuði var skiptum á félaginu BG Fasteignum ehf. lokið. Aðeins fékkst rúm ein milljón króna greidd upp í kröfurnar sem hljóðuðu upp á rúma sautján milljarða. Félagið var einnig í eigu Baugs Group og hélt m.a. utan um vaxmyndasafnið Madame Tussaud í London.
BG Holding var líkt og BG fasteignir skráð í höfuðstöðvum Baugs að Túngötu 6. Þegar Baugur Group var tekinn til gjaldþrotaskipta í mars 2009 skiptu hlutafélög með lögheimili á sama stað tugum. Í öllum tilfellum voru þessi félög að öllu eða mestu leyti í beinni eigu Baugs Group.
Í síðasta mánuði var skiptum á félaginu FG-5, sem áður var Gaumur, einnig lokið. Kröfurnar námu alls tæplega 38,7 milljörðum króna og voru stærstu hluthafar félagsins Baugsfjölskyldan með um 97% hlut. Þar af átti Jón Ásgeir Jóhannesson 41% hlut og var langstærsti hluthafinn.
Stærsta eign Gaums, síðarFG-5ehf., var 75% hlutur í Baugi, móðurfélagi BG Holding.